Fótbolti

Argentína jafnaði á sex­tándu mínútu upp­bóta­tímans í fyrsta leik ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Soufiane Rahimi, til hægri, fagnar öðru marka sinna með liðsfélaga sínum Bilal el Khannouss.
Soufiane Rahimi, til hægri, fagnar öðru marka sinna með liðsfélaga sínum Bilal el Khannouss. Getty/Tullio M. Puglia

Keppni á Ólympíuleikunum í París hófst í dag með tveimur leiknum í knattspyrnu karla þar sem Spánn fagnaði sigri í sínum leik og Argentínumenn náðu jafntefli á móti Marokkó með dramtískum hætti.

Marokkómenn komu mikið á óvart í síðustu heimsmeistarakeppni með því að vinna bronsverðlaunin í Katar í desember 2022. Það er greinilega mikil uppsveifla í maróskum fótbolta því lið þeirra var nálægt því að vinna Argentínu í opnunarleik Ólympíuleikanna í dag. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Soufiane Rahimi var hetja Marokkó því hann skoraði bæði mörk liðsins. Fyrst með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks og svo úr vítaspyrnu eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik. Rahimi spilar með Al Ain í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Varamaðurinn Giuliano Simeone minnkaði muninn fyrir Argentínumenn á 68. mínútu og þeir voru síðan í stanslausri stórsókn á lokamínútunum. Jöfnunarmarkið kom þó ekki fyrr en á sextándu mínútu uppbótatímans en fimmtán mínútum hafði verið bætt við. Cristian Medina kom boltanum þá í netið eftir mikla stórskotahríð.

Spánn vann 2-1 sigur á Úsbekistan á sama tíma eftir að Úsbekar höfðu náð að jafna metin.

Marc Pubill skoraði fyrra mark Spánverja á 29. mínútu en sigurmarkið skoraði Sergio Gomez á 62. mínútu. Eldor Shomurodov hafði jafnað metin úr vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks.

Spánverjar fengu víti á 59. mínútu en Sergio Gomez lét verja frá sér. Hann bætti fyrir það með því að skora sigurmarkið aðeins nokkrum mínútum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×