Skoðun

Gott að eldast á Vest­fjörðum

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir skrifar

Nú standa stjórnvöld fyrir vegferðinni „Gott að eldast“ þar sem tekið er utan um málefni eldra fólks með nýjum hætti þar sem aðgerðaráætlun er fylgt eftir til að tryggja betri þjónustu við eldra fólk, meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni.

Sex svæði á landinu voru valin til þátttöku í þróunarverkefnum um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þar á meðal á Vestfjörðum, þar sem Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður og sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, ásamt Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfa í samvinnu við að efla og þróa þjónustu fyrir eldra fólk. Verkefnið er styrkt af stjórnvöldum og ætlað til þess að vera leiðarvísir um skýra framtíðarsýn og heildræna nálgun í málefnum eldra fólks.

Virkni og vellíðan eldra fólks

Með verkefninu er sérstök áhersla lögð á virkni og vellíðan eldra fólks til þess að draga úr áhættu á félagslegri einangrun og einmanaleika. Með því að styðja heilsu og vellíðan, félagslega þátttöku og öryggi eldra fólks má hafa jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra. Tækifærin á Vestfjörðum eru fjölmörg til þess að efla aldursvænt samfélag. Horfa þarf til styrkleika, mikilvægi framlags og þátttöku eldra fólks sem ávinning fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Tengiráðgjafi til starfa

Það verður í höndum tengiráðgjafa, sem nýverið hóf störf fyrir sveitarfélögin innan þróunarverkefnis Gott að eldast á Vestfjörðum, að huga að verkefnum sem styðja við einstaklinga til virkni og vellíðanar. Við búum að verðmætum tækifærum til þátttöku, heilsueflingar, félagsstarfs, fræðslu og tómstunda eldra fólks í samfélaginu okkar. Markmið okkar ætti að vera að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni fólks til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins.

Tengiráðgjafi er til taks fyrir einstaklinga sem og aðstandendur eldra fólks. Einnig tengir hann íbúa við bjargir sem fyrir eru í samfélaginu og fjölbreytt úrval virkni úrræða. Undirstaðan í starfi tengiráðgjafa er að styðja við fólk til að geta átt gefandi líf alla ævi.

Höfundur er tengiráðgjafi Gott að eldast á Vestfjörðum. Gott að eldast – Hér má lesa aðgerðaráætlun í heild sinni.




Skoðun

Sjá meira


×