„Við höfum ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á friðarsúlunni í Viðey. Og verkefnið er í meginatriðum tvíþætt, annars vegar að gera upp tæknibúnaðinn, sérstaklega ljósin, sem Friðarsúlan snýst um og síðan lagfæra þennan grunn, eða óskabrunn sem svo heitir sem ljóssúlan rís upp úr sem er einmitt byggður úr þrennskonar íslensku grjóti.“
Breytingar verða einnig á ljóssúlunni sjálfri.
„Það sem mun birtast borgarbúum, landsmönnum öllum og ferðamönnum er að friðarsúlan mun lýsa ennþá bjartar og þéttar heldur en áður þannig að þetta verður ennþá glæsilegra kennileiti í borginni og það sem kannski skiptir mestu máli, ennþá áhrifameiri áminning um þann friðarboðskap sem verið snýst um. Og það er ekki vanþörf á í heiminum eins og hann er í dag.“
Framvæmdir metnar á 33 milljónir króna
Yfirhalningin og framkvæmdirnar munu kosta, samkvæmt kostnaðaráætlun um 33 milljónir króna. Skúli var spurður hvort hann óttaðist ekki að einhverjir teldu þetta bruðl, þrátt fyrir að um fallegt listaverk væri að ræða.
„Það kæmi mér á óvart, því þetta er ekki ógnardýrt verkefni, þetta eru endurbætur sem munu kosta í kringum 33 milljónir og við erum mjög ánægð með að það eru sömu aðilar sem fjármagna og stóðu að gerð Friðarsúlunnar á sínum tíma, það er að segja Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og síðan Yoko Ono sjálf, eða sjóður á hennar vegum. Þessir þrír aðilar skipta með sér þessum kostnaði og það sem er líka ánægjulegt við það að vera að skipta um ljósabúnaðinn er að orkuþörfin verður minni, viðhaldið verður auðveldara þannig að rekstrarkostnaðurinn á verkinu mun minnka frá því sem núna er, sem er auðvitað ánægjulegt.“