Erlent

Selenskíj heim­sótti lykil­ríki og þakkaði fyrir vopnin

Kjartan Kjartansson skrifar
Selenskíj (f.m.) í Skotfæraverksmiðju Bandaríkjahers í Scranton í Pennsylvaníu sunnudaginn 22. september 2024.
Selenskíj (f.m.) í Skotfæraverksmiðju Bandaríkjahers í Scranton í Pennsylvaníu sunnudaginn 22. september 2024. AP/Bandaríkjaher

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, þakkaði starfsmönnum vopnaverksmiðju í Pennsylvaníu fyrir skotfæri sem þeir framleiða fyrir Úkraínuher í heimsókn í gær. Pennsylvanía gæti ráðið úrslitum um hver verður næsti forseti Bandaríkjanna.

Skotfæraverksmiðjan í Scranton í Pennsylvaníu er ein fárra sem eftir eru í Bandaríkjunum sem framleiða 155 millímetra sprengikúlur fyrir stórskotalið. Bandaríkjastjórn hefur sent Úkraínumönnum meira en þrjár milljónir slíkra kúlna frá því að innrás Rússa hófst fyrir meira en tveimur og hálfu ári.

Sprengjukúlurnar fyrir stórskotalið sem eru framleiddar í Scranton. Úkraínumenn fóru í gegnum sex til átta þúsund slíkar kúlur á dag á tímabili í stríðinu.AP/Ted Shaffrey

Selenskíj, sem er staddur í Bandaríkjunum vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, heimsótti verksmiðjuna í gær. Matt Cartwright, fulltrúadeildarþingmaður demókrata, sem fylgdi Selenskíj segir skilaboð úkraínska forsetans þar hafa verið einföld: „Þakka ykkur fyrir, og við þurfum á meiru að halda.“

„Það er á stöðum sem þessum þar sem maður finnur sannarlega til þess að lýðræðisríki geti haldið velli. Þökk sé fólki sem þessu, í Úkraínu, í Bandaríkjunum og öllum bandalagsríkjunum, sem vinna þrotlaust að því að tryggja að mannslíf séu varin,“ skrifaði Selenskíj síðar á samfélagsmiðlinum X.

AP-fréttastofan segir að Úkraínumenn hafi skotið svo mörgum sprengikúlum á tímabili og byrjað var að ganga verulega á birgðir Bandaríkjamanna sem óttuðust að þær dygðu ekki Bandaríkjaher í neyð. Því var gripið til aðgerða til þess að auka framleiðsluna og ræsa gamlar verksmiðjur. Það skapar störf á stöðum eins og Scranton.

Nokkrir heimamenn af austurevrópskum uppuna fögnuðu Selenskíj með úkraínskum fánum fyrir utan verksmiðjuna.AP/Laurence Kesterson

Heimsókn Selenskíj vekur ekki síst athygli vegna þess hversu mikilvæg Pennsylvaníu er í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember. Úrslitin þar gætu hæglega ráðið því hvort þeirra Kamölu Harris eða Donald Trump verður forseti. Afar mjótt er á munum á milli þeirra í Pennsylvaníu en Harris mælist með naumt forskot.

Stjórn Joes Biden, þar sem Harris er varaforseti, hefur stutt einarðlega við bakið á Úkraínumönnum í vörn þeirra gegn innrás Rússa. Trump og Repúblikanaflokkurinn hefur aftur á móti ítrekað lýst yfir efasemdum um áframhaldandi stuðning við stjórn Selenskíj.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×