Connecticut Sun reyndist of stór biti fyrir lið Indiana Fever að kyngja í úrslitakeppni WNBA deildarinnar og féll liðið úr leik í nótt eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum gegn Sun.
Með því lauk afar löngu tímabili Caitlin Clark. Ekki bara í WNBA deildinni því hún tók stökkið þangað, eftir að hafa verið valin fyrst í nýliðavali deildarinnar, beint eftir að hafa átt frábært hjá Iowa háskólanum.

Þau eru þónokkur metin sem Caitlin Clark setti í deildarkeppninni á sínu fyrsta tímabili. Hún á nú metið yfir flestar stoðsendingar í deildarkeppni WNBA deildarinnar. Alls 337 talsins. Þá er hún sá leikmaður í sögu deildarinnar sem hefur skorað og gefið flestar stoðsendingar samanlagt á einu tímabili. Alls kom hún að 1520 stigum.
Þá á Clark nú metið yfir flest stig skoruð af nýliða í deildarkeppni WNBA deildarinnar. Alls 769 stig talsins og flestar þriggja stiga körfur hjá nýliða sem voru alls 122 talsins.
„Það skemmtilega við þetta er að mín tilfinning er sú að ég sé bara rétt að klóra yfirborðið,“ sagði Clark á blaðamannafundi eftir leik gærkvöldsins en hún hefur verið valin nýliði ársins í deildinni. „Ég vil hjálpa þessu liði að ná enn hærra. Hjálpa liðsfélögum mínum að verða enn betri. Á sama tíma veit ég að fyrir mig persónulega er rými fyrir bætingar. Það er það sem gerir mig svo spennta fyrir framhaldinu. Mér líður eins og ég geti orðið miklu betri. Áður en við vitum af verðum við mætt aftur hingað við upphaf nýs tímabils.“
Um var að ræða fyrsta skref Indiana Fever í átt að meistaratitli með Caitlin Clark innanborðs. Það virtist alltaf langskot að liðið myndi sækja sjálfan meistaratitilinn á þessu tímabili en þangað er stefnan sett í framhaldinu.