„Það er grundvallaratriði að tryggja að konur hafi sjálfræði í því að ákveða hvort þær vilja eignast börn, útfrá eigin sannfæringu, frjálsar frá inngripum eða þrýstingi frá stjórnvöldum,“ segir Melania meðal annars.
„Af hverju ætti einhver annar en konan sjálf að hafa vald til þess að ákveða hvað hún gerir við líkama sinn? Grundvallarréttur kvenna til einstaklingsfrelsis, til eigin lífs, veitir henni valdið til að binda enda á meðgöngu ef hún óskar þess.“
Melania er afdráttarlaus í afstöðu sinni, ólíkt eiginmanninum sem hefur bæði hrósað sér af því að hafa orðið til þess að dómurinn í máli Roe gegn Wade var felldur úr gildi og af því að vilja að einstaka ríki ákveði hvernig lögum um þungunarrof skuli háttað.
Einnig ósammála eiginmanninum í innflytjendamálum
Donald Trump hefur orðið tvísaga um eigin afstöðu og ýmist sagt munu greiða atkvæði með eða á móti tillögu um að vernda rétt kvenna til þungunarrofs í Flórída. Síðast þegar hann tjáði sig um málið sagðist hann myndu greiða atkvæði á móti tillögunni en það er ekki annað að sjá en eiginkonan muni greiða atkvæði með.
Melania segir í bók sinni að það að meina konu um að binda enda á þungun jafngildi því að meina henni að taka ákvarðanir varðandi eigin líkama. Segist hún alltaf hafa verið þessarar skoðunar.
Þá ver hún þær konur sem ákveða að binda enda á þungun komnar langt á leið og segir að í lang flestum tilvikum sé um að ræða ákvörðun sem sé tekin vegna alvarlegra fósturgalla. Hvetur hún til þess að konum og fjölskyldum þeirra sé sýnd meðaumkun.
Melania, sem hefur afar sjaldan tjáð sig um pólitík, segir einnig frá því í bókinni að hún hafi stundum verið ósammála eiginmanni sínum í innflytjendamálum en talið best að eiga þau samtöl í einrúmi frekar en að viðra ágreininginn opinberlega.