Enski boltinn

Fyrrum leik­maður ÍBV og Sheffield United fannst látinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
George Baldock í leik með Sheffield United á síðustu leiktíð.
George Baldock í leik með Sheffield United á síðustu leiktíð. Vísir/Getty

George Baldock, fyrrum leikmaður Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni, fannst í dag látinn í sundlaug við heimili sitt í Grikklandi. Baldock lék á sínum tíma með ÍBV í efstu deild hér á landi.

Baldock á að baki rúmlega 200 leiki með liði Sheffield United en hann lék meðal annars með liðinu í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2019-2021 og aftur á síðustu leiktíð. Þegar samningur hans hjá Sheffield United rann út gekk hann til liðs við Panathinaikos í Grikklandi og hafði leikið þrjá leiki með liðinu á tímabilinu, þar á meðal gegn Olympiacos á sunnudaginn.

Samkvæmt fréttum grískra fjölmiðla fannst Baldock látinn í sundlaug við heimili sitt í dag en hann var aðeins 31 árs gamall. Í frétt Daily Mail kemur fram að Baldock hafi fundist af eiganda hússins eftir að eiginkona Baldock hafði árangurslaust reynt að ná sambandi við hann fyrr um daginn.

Baldock lék með ÍBV sumarið 2012 undir stjórn Magnúsar Gylfasonar en hann var þá á láni frá Milton Keynes Dons. Hann lék 16 leiki með ÍBV og skoraði í þeim eitt mark.

Baldock lék tólf landsleiki með gríska landsliðinu á sínum ferli en hann átti gríska ömmu og var því gjaldgengur með gríska liðinu. Hann hóf feril sinn með liði MK Dons og á leiki að baki í öllum fimm efstu deildum ensku knattspyrnunnar.

Baldock var hylltur af stuðningsmönnum Sheffield United á síðasta heimaleik liðsins í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíðVísir/Getty

Sheffield United minnist Baldock á X-síðu sinni og þar segir að Baldock hafi verið einstaklega vinsæll á meðal stuðningsmanna, starfsfólks og leikmanna félagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×