Skoðun

Starfs­lýsing kennarans

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Hvað þýðir það að vera kennari?

Þýðir það að vera kennari það sama og það gerði um aldamótin, hvað þá hálfa öld aftur í tímann. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að svo er ekki. Einhvern tímann í grárri forneskju voru kennara víst með sambærileg laun og alþingismenn svo það hefur að minnsta kosti breyst.

Þessar breyttu aðstæður er eitthvað sem mér hefur ekki fundist fá vægi í umræðunni um skólamál. Þó hæstvirtur borgarstjóri láti það hljóma eins og að vilji kennara sé að verja minni tíma með nemendum sínum eða vera alltaf í veikindaleyfi, þá skautar hann framhjá ákveðnum lykilatriðum.

Þegar umræddur kennari var í grunnskóla var öldin önnur, eða svo til. Þá voru færri foreldraviðtöl og foreldrafundir. Nemendur hófu nám í september og luku í maí, skóladagurinn var styttri, aðgengi foreldra að kennurum var minna.

Einnig voru nemendahópar einsleitari og getuskipting var en til staðar. Tækninni hafði ekki ennþá fleygt fram af sama hraða og nú á dögum. Þá voru engir samfélgasmiðlar eða snjalltæki til að keppast við kennara um athygli í kennslustundum. Og engir tæknirisar með beinan hag af því að höggva niður athyglisgetu barna og unglinga, svo ekki sé minnst á foreldra þeirra. Ekki var búið að innleiða Skóla án aðgreiningar og það hafði ekkert fjármálahrun átt sér stað.

Þessi listi er þó engan veginn tæmandi um þær breytingar sem hafa orðið í samfélaginu.

Kennarastarfið hefur því þurft að breytast all nokkuð á þessum tíma. En með þessum breytingum koma líka aukin verkefni inn í starfslýsingu kennara. Það þýðir þó ekki að verkefnin sem áður lágu fyrir hverfi út í buskann.

Þeim þarf áfram að sinna.

Það liggur í augum uppi að ekki er hægt að hlaða og hlaða verkefnum og halda að það hafi engin áhrif.

Þá þurfa þeir sem halda utan um krónurnar einfaldlega að spyrja sig. Hverju á að fórna og hverju á að viðhalda?

Er það ekki þokkalega einföld hagfræði?

Höfundur er grunnskólakennari og þjálfari.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×