Þetta sagði Svandís við fjölmiðla áður en hún gekk á fund Höllu Tómasdóttur forseta í kvöld.
„Ég er sammála því að það sé rétt að Bjarni Benediktsson biðjist lausnar. Hann hefur auðvitað gert grein fyrir því að hann geti ekki meir og að hans erindi sé lokið,“ sagði Svandís sem ítrekaði að henni þætti það mikilvægast að svo stöddu að Bjarni myndi biðjast lausnar.
„Ég tel að það liggi alveg í hlutarins eðli að forsætisráðherra sem hefur gefist upp á verkefninu, treystir sér ekki til að ljúka því, eigi að biðjast lausnar.“
Svandís segist hafa tekið eftir því að formenn annarra flokka eru að velta því fyrir sér að það kunni að vera margar leiðir fyrir mögulega starfsstjórn.
Kæmi það til greina að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra í starfsstjórn ykkar tveggja?
„Mér finnst það alveg koma til greina. Mér finnst að við eigum ekki að taka slíka möguleika af borðinu. Ég held að það gæti farið vel á því. Það skiptir auðvitað máli þegar við förum í þau verkefni sem fram undan eru að þau byggi á einhverjum vinnufrið og trausti,“ segir Svandís, sem bætti við að hún sæi Sigurð Inga alveg fyrir sér sem forsætisráðherra.
„Þegar forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, í raun og veru slítur stjórnarsamstarfinu, og þar með samstarfi við Framsókn og okkur í VG, þá er það þannig að hann er ekki með öll spil á hendi eftir það. Það hlýtur að hafa áhrif á framvinduna.“