Að byggja upp vinnustað sem hræðist ekki breytingar gæti því verið af hinu góða. Enda þekkt að í eðli okkar flestra hræðumst við oft hið óþekkta.
Í umfjöllun FastCompany er bent á nokkur atriði sem hjálpa vinnustöðum að byggja upp ákveðna aðlögunarhæfni, sem gerir vinnustaðinn betur í stakk búinn til að mæta breytingum.
Og þá án þess að hræðast þær.
1. Samskiptin á vinnustaðnum
Lykilatriði er að samskipti á vinnustaðnum séu hreinskiptin og góð.
Ekki aðeins þannig að fólk sé óhrætt við að tjá sig heldur líka að öll hlutverka- og verkefnaskipan sé öllum skýr og svo framvegis.
2. Sviðsmyndir sem sýnishorn
Annað atriði er að teikna upp mögulegar sviðsmyndir, óháð því hvort þær séu líklegar til að verða að veruleika.
Ekkert ósvipað og fólk er farið að venjast þegar hamfarir ríða yfir og sérfræðingar leggja fram spár um hvað mögulega gæti gerst, hvenær og hvar.
Þegar fólk sér mismunandi sviðsmyndir, gerir það ósjálfrátt frekar ráð fyrir að breytingar geti orðið.
3. Svigrúm til breytinga
Flestir vinnustaðir upplifa ákveðið kapphlaup við tímann og álagið dag hvern. Samt þarf að gera ráð fyrir að tími sé til breytinga þegar að þeim kemur. Annars er hætta á að fólk einfaldlega brenni út því álagið verður svo mikið, að óánægja magnist eða vanlíðan vegna breytinga.
Ein leið til þess að búa til þetta svigrúm er að gera ráð fyrir því að það fari alltaf smá tími hjá starfsfólki í eitthvað annað en eingöngu að vinna verkefnin sín. Þetta getur verið tími sem er tekinn frá í viku hverri til að gera eitthvað skemmtilegt saman, að fólk hafi svigrúm til að skreppa í klippingu eða góðan tíma í ræktinni og svo framvegis.