Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands segir í samtali við fréttastofu að fundurinn í dag hafi gengið ágætlega en að enn sé nokkuð langt á milli deiluaðila. Boðað hefur verið til fundar aftur á morgun um klukkan 10.
Hvað varðar verkföllin sem voru samþykkt í dag segir Magnús tvennt koma til. Annars vegar hafi stærri kennarahópur viljað lýsa stuðningi við aðgerðirnar og viðræðuáætlun sambandsins með þessum hætti og hins vegar hafi sambandið viljað gefa fólki góðan fyrirvara til að undirbúa sig fyrir þessar aðgerðir.
Verkföllin í þessum fjórum skólum eru öll tímabundin. Þau hefjast þann 6. janúar og standa til 31. janúar hafi samningar ekki náðst á þeim tíma.
Magnús segir enn eiga eftir að ræða margt en að fólk sé að tala saman.
„Þetta er flókið verkefni og það er enn töluvert í land. Menn eru að tala saman. Það eru allir að leggja sig fram og það vonandi skilar einhverju. Þetta er bara einn dagur í einu,“ segir Magnús Þór að lokum.