Þingkosningar verða haldnar í Þýskalandi 23. febrúar eftir þriggja flokka samsteypustjórn sósíaldemókrata, Frjálsra demókrata og Græningja sprakk fyrr í þessum mánuði. Scholz hefur reynst sögulega óvinsæll kanslari og því vildu mörg flokkssystkini hans að hann viki fyrir Boris Pistorius, varnarmálaráðherra, sem er vinsælasti stjórnmálamaður landsins.
Pistorius tilkynnti hins vegar í gær að hann ætlaði ekki að falast eftir því að leysa Scholz af hólmi sem kanslaraefni flokksins. Sagði hann það sína eigin persónulega ákvörðun, að því er segir í frétt Reuters.
„Í Olaf Scholz höfum við framúrskarandi ríkiskanslara. Hann hefur leitt samsteypustjórn þriggja flokka í gegnum mögulega stærsta neyðarástand síðustu áratuga,“ sagði Pistorius sem lýsti í fyrsta skipti yfir afgerandi stuðningi við framboð Scholz.
Horfur Sósíaldemókrataflokksins eru því ekki góðar í kosningunum. Flokkurinn mælist nú með um fimmtán prósent í skoðanakönnunum á landsvísu sem er um tíu prósentustigum minna en hann fékk upp úr kjörkössunum í kosningum árið 2021.
Segist skynsamlegasti kosturinn því hann er á bremsunni gagnvart Úkraínu
Scholz sjálfur ætlar að keyra kosningabaráttu sína á því að hann sé skynsamasti kosturinn sem kanslari Þýskalands, að sögn dagblaðsins Politico. Hann vísar meðal annars til andstöðu sinnar við að styrkja Úkraínu með þýskum Taurus langdrægum skotflaugum sem hann óttast að gæti leitt til stigmögnunar stríðsins.
Friedrich Merz, kanslaraefni Kristilegra demókrata, segist aftur á móti tilbúinn að senda Úkraínumönnum Taurus-flaugar til að hjálpa þeim að verjast innrás Rússa. Kristilegir demókratar mælast stærstir í skoðanakönnunum.