Noregur hafði þegar tryggt sér sæti í milliriðlakeppninni á EM, og tvö stig með sér, fyrir leikinn við Slóvaka sem vitað var að væru á heimleið eftir leikinn.
Engu að síður sýndu þær norsku yfirburði sína og unnu 23 marka sigur, þar sem allir útileikmenn Noregs skoruðu og Camilla Herrem var markahæst með átta mörk.
Snemma í leiknum var markvörður Slóvakíu, Bella Olahova, rekin af velli fyrir að stofna Herrem í hættu. Olahova kom út fyrir eigin vítateig í von um að ná inn í sendingu fram völlinn á Herrem sem var í hraðaupphlaupi. Herrem greip þó boltann og rakst aðeins utan í Olahova en mildi var að áreksturinn yrði ekki harðari.
Telur að banna ætti markvörðum að fara úr teignum
Lýsandi leiksins hjá TV 2 í Noregi, Bent Svele, undirstrikaði hve hættuleg hegðun Olahova væri, enda ekki að ástæðulausu sem gefið er rautt spjald á markverði sem gera þetta.
„Þetta er lífshættulegt. Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst að það eigi að banna markvörðum að fara úr teignum. Þarna er Camilla Herrem bara að einbeita sér að því að grípa boltann, og þegar hún grípur stendur allt í einu leikmaður fyrir framan hana sem hún lendir á,“ sagði Svele í útsendingunni.
Áreksturinn hafði engin áhrif á úrslit leiksins og Noregur endar keppni í E-riðli með fullt hús stiga. Fyrr í kvöld tryggðu Slóvenar sér 2. sæti og þetta eru því liðin sem fara úr E-riðli í milliriðil með Hollandi og svo Íslandi eða Þýskalandi, auk tveggja liða úr D-riðli.
Svíar af öryggi áfram en án stiga
Svíar tryggðu sig af öryggi áfram úr A-riðli með risasigri gegn Tyrklandi, 47-19. Það breytir því ekki að Svíþjóð fer áfram án stiga, eftir að hafa tapað fyrir heimakonum í Ungverjalandi í fyrsta leik.
Í B-riðli unnu svo Frakkar risasigur á Portúgal og enduðu með fullt hús stiga, en Pólland varð í 2. sæti með sigri gegn Spáni fyrr í kvöld.
Frakkland, Pólland, Ungverjaland og Svíþjóð verða því saman í milliriðli, ásamt tveimur liðum úr B-riðli (Svatfjallaland, Tékkland, Rúmenía, Serbía).