Það er margir, sem vitja leiða ástvina sína fyrir jól og um jól í kirkjugörðum landsins. Margir fara með jólaleiðisskreytingar á leiðin en nú eru Kirkjugarðar Reykjavíkur í sérstöku átaki við að hvetja fólk að nota eingöngu umhverfisvænar skreytingar.
Helena Sif Þorgeirsdóttir er sviðsstjóri umhirðu og jarðsetninga hjá kirkjugörðunum.
„Við erum bara að hvetja fólk til að velja umhverfisvænar jólaskreytingar og sleppa öllu plasti, vír og teygjum og öllu þessu, sem fylgir oft á þessu skrauti,“ segir Helena.
En hvað á Helena nákvæmlega við þegar hún talar um umhverfisvænar skreytingar?
„Þá á ég bara við skreytingar, sem er síðan hægt að henda í lífrænt rusl eftir jólin og við tökum síðan þetta lífræna rusl, sem er hérna hjá okkur út í görðunum og kurlum það og notum það svo aftur til að laga leiðin í görðunum hjá okkur.“
Helena segir að það aukist alltaf og aukist að fólk komið með umhverfisvænar skreytingar í kirkjugarðana, annað hvort sem það gerir sjálft eða kaupir hjá Kirkjugörðunum en þær skreytingar hafa slegið í gegn í Fossvogskirkjugarði, Gufuneskirkjugarði og Hólavallakirkjugarði.

Helena segir þennan tíma árs hjá kirkjugörðunum dásamlegan.
„Já, já, það er mikið líf og mikið af fólki að koma.
Það er mikið álag, bæði á starfsfólk og umhverfið þannig að það er líka mjög mikilvægt að nota bílastæðin og ganga frekar og vera líka með mannbrodda eins og færðin er núna.“
En lífrænt númer 1, 2 og 3 um jólin eða hvað?
„Bara algjörlega og svo erum við líka með kerti til sölu en þau eru úr tólg og þá erum við einmitt að hugsa um fuglana, að þeir geta þá borðað afganginn og við svo bara týnt upp tómar kertadósir,“ segir Helena Sif.
