Innlent

Margir á síðasta snúningi með jóla­pakkana

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Þær eru misjafnar aðfangadagshefðirnar.
Þær eru misjafnar aðfangadagshefðirnar. Stöð 2

Margmenni var í Kringlunni að græja síðustu jólagjafirnar en þar lokar klukkan eitt í dag. Það er hefð margra að skilja allavega einn pakka eftir og klára þannig stússið á sjálfum aðfangadegi jóla.

Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir það mjög algengt að fólk sé á hlaupum og að það hafi myndast röð fyrir utan þegar dyrnar voru opnaðar klukkan tíu í morgun.

Kringlan stendur árlega fyrir söfnun svokallaðra aukagjafa til styrktar Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar Íslands. Inga segir söfnunina hafa farið fram úr væntingum og að þúsundir gjafa hafi borist. Fyrirtæki um allan bæ hafi einnig mörg hver styrkt verkefnið í stað þess að gefa viðskiptavinum gjafir.

En eins og fram kom var fjöldi fólks á síðasta snúningi með gjafirnar og fréttastofa náði af nokkrum þeirra tali.

Suma vantaði smáræði eða eitthvað í hátíðarkvöldmatinn, aðrir taka alla pakkana í einum rykk á sjálfan aðfangadag og enn aðra vantar möndlugjöfina. Það mátti þó ekkert segja um innihald pakkana því það er aldrei að vita hvort viðtakandi gjafarinnar væri að fylgjast með hádegisfréttum samhliða jólaundirbúningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×