Fótbolti

Ráku annan þjálfarann á tíma­bilinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Narcis Pelach entist ekki lengi í starfi hjá Stoke.
Narcis Pelach entist ekki lengi í starfi hjá Stoke. David Rogers/Getty Images

Forráðamenn enska liðsins Stoke hafa litla þolinmæði fyrir slæmu gengi liðsins og hafa nú rekið annan þjálfarann á tímabilinu.

Narcis Pelach tók við liðinu þann 18. september af Steven Schumacher, sem þá var látinn taka poka sinn. 

Þegar Pelach tók við hafði Stoke unnið tvo af fyrstu fimm leikjum sínum í ensku 1. deildinni, en Schumacher var látinn fara eftir 1-0 tap gegn nýliðum Oxford.

Gengi liðsins hefur hins vegar verið afleitt undir stjórn Pelach og Stoke situr nú í 19. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 23 leiki, aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Undir stjórn Pelach hefur liðið leikið 18 deildarleiki og aðeins unnið þrjá þeirra. Síðasti deildarsigur liðsins, sem var jafnframt síðasti sigur liðsins í öllum keppnum, kom þann 6. nóvember síðastliðinn gegn Blackburn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×