Til stóð að flugvélin héldi af stað til Tenerife frá Keflavík í morgun klukkan níu. Nokkur töf varð á áætluðu flugi en að sögn Birgis Olgeirssonar upplýsingafulltrúa Play er flugfélagið að vinna upp tapaðan tíma vegna bilun einnar véla sinna.
Þegar loks stóð til að taka á loft, um klukkan 13, var ástand þriggja ungra manna metið þannig að ekki væri óhætt að hefja flugtak. Var þeim fylgt út í fylgd lögreglu.
„Það var búið að tilkynna farþegum að það yrði frestun,“ segir Birgir í samtali við fréttastofu. Hann segir það svo að þegar ástæða fyrir brottvísun er þessa eðlis, að það varði öryggi flugs, sé ekki um það að ræða að flugmiðarnir fáist endurgreiddir. „Ef flugstjóri telur að ástand manna með þeim hætti að það geti ógnað öryggi þá verður að taka ákvarðanir af eða á.“
Samkvæmt heimildum Vísis höfðu öryggisfulltrúar á Leifsstöð veitt mönnunum þremur athygli áður um morguninn, þá vegna ölvunar og haft af þeim afskipti. Það vakti hins vegar athygli farþega að ekki voru nein læti í mönnunum þegar þeir voru leiddir frá borði.