Upp­gjörið: Tindastóll-ÍR 98-88 | Stólarnir á toppinn

Arnar Skúli Atlason skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson var öflugur í liði Stólanna í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson var öflugur í liði Stólanna í kvöld. Vísir/Anton

Tindastólsmenn unnu sinn sjötta heimaleik í röð og tóku toppsætið af Stjörnumönnum með tíu stiga sigri á ÍR-ingum í Síkinu í kvöld, 98-88.

Tindastóll byrjaði betur og komust í 9-2 áður en gestirnir frá ÍR vöknuðu og jöfnuðu og komust yfir og leiddu eftir eftir fyrsta leik hluta 20-22. Jacob Falko hjá ÍR var að reynast Tindastóls strákunum erfiður.

Annar leikhluti hélt áfram að vera jafn en um miðjan fjórðunginn fór Tindastóll að auka tempóið í leiknum og fóru að skilja sig frá ÍR, Sadio Doucoure fór mikinn á þessum kafla og raðaði körfunum á ÍR í öllum regnbogans litum. Tindastóll leiddi í hálfleik, 47-38.

Svipað var upp á teningnum í seinni hálfleik. Tindastóll var með öll völd og komu þessu mest upp í 20 stiga mun. ÍR var ekki af baki dottnir hékk inn í leiknum og náði að skora þriggja stiga körfur og halda sér í seilingarfjarlægð. Tindastóll leiddi með 18 stiga mun 77-59 fyrir seinasta leikhlutann.

ÍR-ingar komu af svakalegum krafti inn í fjórða leikhluta og börðu vel frá sér, Tindastóll var til að mynda komnir í bónus eftir 90 sekúndur í fjórðungnum. 

Eitthvað sló þetta Tindastól út af laginu og fóru strákarnir úr breiðholtinu að salla körfum á Tindastól og komu þessu niður í sjö stiga mun en nær komust þeir ekki og Tindastóll sigldi þessum sigri heim 98-88 og jafna þar með Stjörnuna af stigum í efsta sæti deildarinnar en Stjarnan á leik til góða, ÍR hins vegar situr áfram í 10 sæti en geta gengið stoltið frá borði í kvöld.

Atvikið

Tindastóll keyrði í bakið á ÍR í hraðaupphlaupi og Dedrick Deon Basile fann Sadio Doucoure í allyop troðslu þar sem hann treður aftur á bak.

Stjörnur

Hjá heimamönnum voru Sadio Doucoure, Arnar Björnsson og Dedrick Basile sem leiddu þetta á sóknarhelming fyrir Tindastól. Þeir voru frábærir og alltaf  klárir ef þeim vantaði stig. Þá mættu þeir á svæðið og skiluðu körfum fyrir Tindastól.

Hjá ÍR var Jacob Falko var með 30 stig og tók mest til sín hjá þeim sóknarlega og gerði leikmönnum Tindastóls lífið leitt. Hákon og Matej Kavas voru öflugir líka. Það var barátta og elja í liðinu í kvöld.

Stemning og umgjörð

Það var gaman að sjá strákana í Ghetto Hooligans vera komna á Krókinn. Þeir hefðu mátt vera fleiri, Grettismenn hefðu mátt syngja og tralla meira og vera með meiri leiti. Það má líka nefna nýju auglýsingaskiltin á Króknum. Þau voru glæsileg.

Dómarar [5]

Þeir hafa átt betri dag og mikið af dómum sem voru rangir. Þeir fóru alltof mikið í skjáinn. Sem betur fer var þetta ekki erfiður leikur að dæma.

Sigtryggur Arnar Björnsso.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er stór sigur fyrir okkur“

Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls var að vonum kátur eftir sigur liðsins í kvöld og segir stefnuna setta á toppinn.

„Ég er bara mjög sáttur. ÍR er hörkulið, heitasta liðið í deildinni í dag. Þetta er stór sigur fyrir okkur og mikilvægur sigur til að halda okkur við toppsætið,“ sagði Arnar.

Þrátt fyrir að Tindastóll hafi leitt örugglega allan leikinn voru ÍRingar ekki langt undan.

„Það er kraftur í ÍR og við þurfum að bæta okkar leik. Við erum allt of mikið upp og niður og þegar við náum forystu þá hægjum við oft á okkur. Þá erum við ekki að spila okkar bolta. Við þurfum að halda okkar tempói og hlaupa yfir lið þegar við erum 20 stigum yfir. Við eigum að halda því þannig ekki hleypa þeim aftur inn í leikinn,“ sagði Arnar.

Arnar bætti við að þeir ætluðu að berjast við Stjörnuna um toppsætið og þeir væru með liðið í það.

Benedikt Guðmundsson er þjálfari Tindastóls.Vísir/Anton Brink

„Ekki sniðugt að kvarta of mikið hérna“

Benedikt Guðmundsson þjálfari Tindastóls var að vonum ánægður með að byrja árið á tveimur sigur en sá seinni kom í kvöld eftir leik við ÍR.

„Alltaf gott að ná í sigur og ná í stiginn tvö byrjum allavega vegar nýtt ár á tveimur sigrum og væri ekki sniðugt að kvarta of mikið hérna,“ sagði Benedikt.

Benedikt hefði vilja að þegar Tindastóll komst 20 stigum yfir í leiknum að þeir hefðu klárað leikinn örugglega í staðinn fyrir að hleypa ÍR inn í leikinn

„Þeir komu alltaf með áhlaup aftur, þeir eru öflugir, sem betur fer komust ekki of nálægt okkur, en leikurinn var aldrei búinn, þó við værum með 20 stiga forskot um tíma. Það var alltaf hættan á því að þeir myndu koma sér inn í þetta, við réðum illa við kanann þeirra Falko,“ sagði Benedikt.

„Þeir eru öflugir og við þurftum að hafa okkur alla við að klára þennan leik. Ég hefði viljað sjá meira drápseðli og að við myndum ganga frá leiknum þegar tækifæri gefst. Við vorum með leikinn og komnir 20 stigum yfir, en körfubolti er eins og allir vita, áhlaup í báðar áttir. ÍR liðið er bara með karakter í þessu og þeir gefast ekkert upp. Bara vel gert hjá þeim að koma sér aftur inn í þetta, sem betur fer tókum við sigurinn,“ sagði Benedikt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira