Góður varnarleikur og frammistaða Viktors Gísla Hallgrímssonar í markinu lagði grunninn að 23-18 sigri Íslands í fyrrakvöld. Aðspurður um hvort það þurfi að fínpússa sóknarleikinn segir Gísli hann hafa verið nokkuð góðan, færanýtingin hafi frekar verið vandamálið.
„Það eru alltaf einhverjir hlutir (sem má laga) en á sama tíma að vörnin og Viktor voru stórkostleg, þá erum við líka að klikka á helling af dauðafærum. Það má ekki gleyma því,“
„Við erum ekkert að tapa klaufalegum boltum, sem mér finnst jákvætt, að við séum ekki að hleypa þessu upp í neitt kæruleysi. Þetta er meira að við vorum að klikka á dauðafærum um miðbik seinni hálfleiks, þar sem við förum með aragrúa af færum,“ segir Gísli Þorgeir.
Egyptarnir öflugir
Egyptaland er næsta verkefni en þeir egypsku unnu góðan sigur á Króatíu í síðasta leik og eru jafnir Íslandi á toppi milliriðilsins. Ljóst er að Egyptar eru áskorun sem er frábrugðin slóvenska liðinu, en hreint ekki verra lið.
„Egyptar eru ótrúlega klókir og búnir að vera með svakalegan stíganda. Þeir eru auðvitað með spænskan þjálfara svo þeir eru með allskonar fídusa sem við þurfum díla við. Þeir eru svakalega þolinmóðir og með frábæran línumann,“ segir Gísli og bætir við:
„Ég ber mikla virðingu fyrir þessu liði. Hafa sýnt mikinn stíganda og stimplað sig inn sem topp 5 eða 10 lið í heiminum. Þeir hafa alltaf sýnt og sannað aftur hvers megnugir þeir eru. Unnu Króata mjög sannfærandi hér í Króatíu sem er hægara sagt en gert,“
„Mikið hrós á þá en við munum leggjast yfir þá og fara yfir leikplanið,“ segir Gísli.
Viðtalið má sjá í heild í spilaranum.