Freyr þekkir Sævar Atla eflaust betur en flestir þar sem báðir eru uppaldir í Leikni Reykjavík. Freyr fékk Sævar Atla svo til sín í Lyngby skömmu eftir að hann tók við þar á bæ. Sævar Atli spilaði undir stjórn Freys í tvö og hálft ár áður en Freyr hélt til Belgíu.
Nú er Freyr hins vegar mættur til Noregs og samkvæmt Bergens Tidende sagður vilja fá Sævar Atla yfir. Samningur leikmannsins við Lyngby rennur út í sumar og því gæti Brann sótt hann frítt eða ef til vill keypt hann heldur ódýrt vilji Lyngby ekki missa hann frítt.
Sævar Atli er framherji að upplagi sem hefur þó leyst ýmsar stöður á tíma sínum hjá Lyngby. Alls hefur hann spilað 111 leiki fyrir félagið, skorað 18 mörk og lagt upp 13 til viðbótar.
Freyr skrifaði undir samning til ársloka 2027 hjá Brann. Liðið endaði í 2. sæti efstu deildar Noregs á síðustu leiktíð.