Körfubolti

Martin í fjórða sæti í stoðsendingum í EuroLeague

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson hefur raðað inn stoðsendingum með Alba Berlin í EuroLeague í vetur.
Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson hefur raðað inn stoðsendingum með Alba Berlin í EuroLeague í vetur. Getty/Matthias Renner

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson hefur verið duglegur að finna liðsfélaga sína í EuroLeague deildinni í vetur.

Martin er nú einn af bestu sendingamönnunum í bestu körfuboltadeild Evrópu.

Martin gaf ellefu stoðsendingar í vikunni í frábærum sigri Alba Berlin á ísraelska félaginu Maccabi Tel Aviv og það á útivelli.

Martin var með ellefu stig og ellefu stoðsendingar í leiknum en hann tók bara sex skot (hitti úr þremur) og tapaði ekki einum bolta á þeim tuttugu mínútum sem hann spilaði.

Efstu menn í stoðsendingum í EuroLeague til þessa á tímabilinu.EuroLeague

Eftir þennan frábæra leik þá hækkaði Martin sig upp í fjórða sætið yfir flestar stoðsendingar að meðaltali í EuroLeague í vetur.

Martin hefur gefið 5,8 stoðsendingu að meðaltali í sextán leikjum. Hann er bara að spila í 22,6 mínútur í leik sem gerir þennan stoðsendingafjölda hans enn merkilegri.

Í síðustu sex leikjum hefur Martin gefið samtals 45 stoðsendingar á aðeins 117 spiluðu mínútum sem gera 15,4 stoðsendingar á hverjar fjörutíu mínútur.

Hann er líka bara með 26 stoðsendingar í síðustu þremur leikjum án þess að tapa einum einasta bolta. Það er kannski svakalegasta tölfræðin í allri þessari upptalningu.

Þrír leikmenn hafa gefið langflestar stoðsendingar í vetur en efstur er Íraelsmaðurinn Tamir Blatt hjá Maccabi Tel Aviv sem er með 7,3 í leik. Blatt er sonur þjálfarans David Blatt sem þjálfaði einu sinni Cleveland Cavaliers í NBA.

Bandaríkjamaðurinn TJ Shorts hjá París (7,3) og Argentínumaðurinn Facundo Campazzo hjá Real Madrid (6,9) eru einnig hætti en Martin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×