Sport

Þrjú hlaup, þrír sigrar og þrjú Ís­lands­met: „Get ekki kvartað yfir neinu“

Aron Guðmundsson skrifar
Baldvin Þór hefur farið afar vel af stað á nýju ári og raðað inn Íslandsmetum
Baldvin Þór hefur farið afar vel af stað á nýju ári og raðað inn Íslandsmetum Vísir/Einar

Bald­vin Þór Magnús­son hljóp á nýju Ís­lands­meti þegar að hann tryggði sér Norður­landa­meistara­titilinn í 3000 metra hlaupi innan­húss í Finn­landi í gær. Hlaupið tryggir Bald­vini sæti á EM eftir innan við mánuð en þetta er þriðja Ís­lands­met hans í fyrstu þremur keppnum ársins sem hann hefur í þokka­bót unnið. Hann stefnir á medalíu á EM.

Bald­vin Þór hljóp 3000 metra hlaupið á 7:39,94  í gær. Það er nýtt Ís­lands­met en Bald­vin átti einnig fyrra metið í greininni sem hann setti fyrr á árinu á tímanum 7:45,13 og er þetta nýja Ís­lands­met Bald­vins því bæting hjá honum um rúmar fimm sekúndur.

Í þokka­bót sigraði Bald­vin hlaupið og er því Norður­landa­meistari í 3000 metra hlaupi innan­húss og hafði hann þar meðal annars betur gegn Norðmanninum Filip Man­gen Ingebrigt­sen. Tíminn sem Bald­vin setti tryggir honum þátt­tökurétt á EM innan­húss.

„Ég bjóst kannski alveg við svona miklu en vissi að ég gæti alveg hlaupið eitt­hvað hraðar en þegar að ég hljóp á 7:45, það var ekki alveg hið full­komna hlaup og var einnig í fyrstu keppni ársins,“ segir Bald­vin í sam­tali við Vísi. „ Ég var klár­lega í betra formi núna heldur en þegar að ég setti það. Ég var kannski að búast við því að hlaupa nær 7:41 en það er bara frábært að hlaupa tveimur sekúndum hraðar en það, komast undir 7:40 og vinna. Ég er alveg í skýjunum með þetta.“

Mjög gott skref í rétta átt

Aðal­mark­miðið fyrir hlaup var að hlaupa sig inn á EM.

„Ég vildi tryggja mér það sæti, langaði mjög mikið að komast á það mót. Síðasta haust ræddu ég og þjálfarinn minn mark­miðin, hvað við vildum gera, og ætlunin var að stilla okkur vel upp til þess að hlaupa EM innan­húss. Að hafa náð því er alveg frábær til­finning.“

Er hægt að segja að þetta hafi verið hið full­komna hlaup?

„Full­komið hlaup miðað við allt sem var gefið. Ég hugsa alveg að ég hefði geta farið hraðar ef það hefði verið ein­hver annar að leiða hlaupið. Ég tók allan seinni helminginn, Ingebrigt­sen kom aðeins nálægt mér síðustu fimmtíu metrana en það hefði verið gaman hvernig hefði farið ef ein­hver annar hefði verið að stýra pace-inu, hversu hratt hann hefði farið. Maður kvartar þó ekkert, þetta er mjög gott skref í rétta átt.“

Bald­vin er að upp­lifa frábæra byrjun á árinu en á þessum fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur hann slegið þrjú Ís­lands­met.

„Árið hefur byrjað mjög vel. Þrjú hlaup, þrír sigrar og þrjú Ís­lands­met. Ég get ekki kvartað yfir neinu.“

Árangur Baldvins á árinu til þessa:

- 1. sæti og Íslandsmet í 3000 metra hlaupi þann 19. janúar síðastliðinn þegar hann hljóp á 7:45,11 mínútum á móti í Sheffield.

- 1.sæti og Íslandsmet í 1500 metra hlaupi þann 27. janúar á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll þegar að hann kom í mark á tímanum 3:39,67.

- 1. sæti og Íslandsmet í 3000 metra hlaupi þann 9. febrúar á Norðurlandamótinu í Espoo, Finnlandi þegar að hann hljóp á tímanum 7:39,94 og sló þar með Íslandsmet sitt í hlaupinu frá því 19. Janúar í Sheffield.

Innan við mánuður er til stefnu þar til að Evrópu­meistaramótið innan­húss hefst og Bald­vin er í góðri stöðu.

„Ég held ég þurfi aðeins að fara aðeins í grunnæfingarnar aftur núna, er búinn að keppa svolítið mikið. Ég er búinn að keppa þrisvar sinnum á síðustu þremur vikum og hef ekki verið að sinna grunnæfingunum á milli. Ég ætla aftur í grunninn núna og undir­búa mig svo fyrir EM. Ég er klár­lega með smá for­skot á suma kepp­endur á EM þar sem að það eru aðeins þrír frá hverju landi gjald­gengir í hverja grein. Lönd eins og Þýska­land, Bret­land og Holland eru með fleiri en þrjá hlaupara sem hafa tryggt sér keppnis­rétt en þeir þurfa að keppa á sínu landsmóti, keppa um þessi þrjú sæti. Ég er hins vegar öruggur inn og get því farið að ein­beita mér að fullu að EM.“

Og Bald­vin er með mark­miðin á hreinu fyrir mótið.

„Fyrst og fremst ætla ég mér í úr­slit og svo keppa um medalíu þar. Það verður gaman að sjá hverjir mæta til leiks. En það væri frábært að næla sér í medalíu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×