Samninganefndir komu saman að nýju hjá ríkissáttasemjara í morgun eftir helgarfrí. Kennarar mættu allir aftur til vinnu í morgun eftir að Félagsdómur dæmdi verkföll þeirra í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum ólögmæt á þeim forsendum að aðgerðirnar næðu ekki til allra starfsmanna stéttarfélagas hjá sama vinnuveitanda. Margir syrgja þessa niðurstöðu Félagsdóms.
„Þessi hugmynd kom að vera klædd svörtu. Ætli það lýsi ekki okkar líðan í dag, þetta er svo skrítið. Það eru mjög blendnar tilfinningar í stéttinni okkar núna,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir, leikskólakennari á Rauðhóli í Reykjavík. Sigríður ræddi stöðuna í kjaradeilunni nánar í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Kennarar á Rauðhóli fóru í verkfall fyrir viku síðan. Hún segir gott að mæta aftur og hitta krakkana en sárt á sama tíma.
„Við erum í góðri trú í þessari baráttu, eins og er margoft búið að tala um að það sé búið að svíkja okkur síðan 2016. Við erum í góðri trú í verkfalli og svo fer þetta í þennan dóm þannig að skiljanlega eru margar tilfinningar í gangi.“
Boðað hefur verið til samstöðufundar kennara við Austurvöll í kvöld, á sama tíma og forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína.
„Ég á von á því að fólk mæti, til að sýna samstöðu í hringiðunni sem við erum í núna. Ég held það sé fyrst og fremst gott fyrir fólk að hittast,“ segir Sigríður.
Kennarar viti ekkert hvernig gangi við samningaborðið og því erfitt að leggja mat á hvort grípa eigi til allsherjarverkfalls.
„Maður vill auðvitað forðast það í lengstu lög að fara í verkfall. Maður vill bara að það sé hægt að semja.“