Innlent

Sýkingin lík­lega af völdum bacillus cereus

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hefðbundinn þorramatur.
Hefðbundinn þorramatur. Wikipedia Commons

„Það er engin leið að segja nákvæmlega hvað fór úrskeiðis, hvernig þessi baktería komst inn í okkar vistkerfi og afhverju þetta smitaði svona marga.“

Þetta segir Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Veisluþjónustu Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is en samkvæmt miðlinum má líklega rekja veikindi á tveimur þorrablótum þar sem veisluþjónustan sá um veitingar til bakteríunnar bacillus cereus.

Um var að ræða þorralbót í Þorlákshöfn og Grímsnes- og Grafningshreppi en af samtals um 400 gestum tilkynntu 120 veikindi. 

Að sögn Árna fannst bacillus cereus í tveimur sýnum af hlaðborðinu en ekki var skimað eftir henni hjá þeim sem veiktust og því ekki hægt að fullyrða með óyggjandi hætti að hún hafi valdið veikindunum.

Árni segir afar erfitt að bregðast við bakteríunni, sem sé einkar lífseig.

„Það þýðir að alveg sama hversu fullkomnir okkar verkferlar eru, varðandi endurhitun og annað, þá var engin leið til þess að bæta úr ástandinu eftir að sýkingin komst í matvælin eða búnaðinn og á milli hlaðborða. Heilbrigðiseftirlitið er búið að koma og taka út ferlana okkar og gerði engar stórar athugasemdir.“

Ítarlega er fjallað um málið á sunnlenska.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×