Enski boltinn

Með sigri verði Liver­pool með aðra hönd á enska meistara­titlinum

Aron Guðmundsson skrifar
Liverpool er í afar góðri stöðu í ensku úrvalsdeildinni fyrir leik kvöldsins gegn Everton
Liverpool er í afar góðri stöðu í ensku úrvalsdeildinni fyrir leik kvöldsins gegn Everton Vísir/Getty

Jamie Carrag­her, fyrr­verandi leik­maður Liver­pool og núverandi spark­s­pekingur hjá Sky Sports segir að fari svo að Liver­pool vinni úti­sigur á grönnum sínum í Ever­ton í ensku úr­vals­deildinni í kvöld muni það svo gott sem slökkva í titil­vonum Arsenal.

Liver­pool er með sex stiga for­skot á Arsenal á toppi ensku úr­vals­deildarinnar og leik til góða sem liðið leikur í kvöld gegn Ever­ton á Goodi­son Park en um er að ræða síðasta granna­slag liðanna á þeim velli þar sem að Ever­ton er við það að færa sig yfir á nýjan og glæsi­legan leik­vang.

Beri Liver­pool sigur úr býtum í kvöld þýðir það að liðið verður með níu stiga for­skot á toppi deildarinnar, Carrag­her segir að með sigri verði Liver­pool komið með aðra höndina á Eng­lands­meistara­titilinn.

„Níu stiga for­ysta og fjórtán leikir eftir væri mikið for­skot miðað við spila­mennsku Liver­pool á tíma­bilinu. Ef þeir vina mun það sál­fræði­lega veita leik­mönnum liðsins mikinn slag­kraft og á sama tíma skaða Arsenal. Ég er ekki viss um að margir hjá Arsenal myndu þá trúa því að þeir gætu komið til baka úr því.“

Jamie Carragher, sparkspekingur Sky Sports og fyrrverandi leikmaður LiverpoolVísir/Getty

Liver­pool er á sínu fyrsta tíma­bili undir stjórn Hollendingsins Arne Slot og það gengur vel. Liðið féll þó nokkuð óvænt úr leik gegn B-deildar liði Plymouth Ar­gy­le í enska bikarnum um nýliðna helgi en er komið í 16-liða úr­slit Meistara­deildarinnar, úr­slita­leik enska deildar­bikarsins og eins og fyrr sagði á toppi ensku úr­vals­deildarinnar með þægi­legt for­skot sem gæti orðið enn betra í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×