Vladimír Pútín, forseti Rússlands, vann líklega stóran sigur í gær. Hann gerði það ekki á víglínunni í Úkraínu eða í Kúrsk, heldur á alþjóðasviðinu og hafa málpípur hans fagnað ákaft. Er það eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagðist í gær hafa átt gott og langt símtal við Pútín og að þeir hefðu lýst yfir vilja til að heimsækja hvorn annan og hefja fljótt viðræður sem eiga að binda enda á átökin í Úkraínu. Skömmu áður hafði varnarmálaráðherra Trumps sýnt á spil bakhjarla Úkraínu fyrir viðræðurnar og slegið nokkur veigamikil viðræðuatriði af samningaborðinu, án þess að Rússar þyrftu að gefa nokkuð eftir. Ráðamenn í Evrópu hafa gagnrýnt ummæli Trumps og Hegseths og Úkraínumenn óttast að verða settir á hliðarlínuna í viðræðum um eigin framtíð. Donald Trump ræddi við blaðamenn í Hvíta húsinu í gærkvöldi. Þar neitaði hann meðal annars að segja að Úkraína stæði jafnfætis Bandaríkjunum og Rússlandi í viðræðum um að binda enda á stríðið. Hann gaf einnig til kynna að Úkraínumenn þyrftu að halda kosningar, sem er í takt við yfirlýsingar frá Kreml um að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sé umboðslaus. Hér að neðan má sjá samantekt AP á ummælum Trumps frá gærkvöldinu um Úkraínu og Pútín. Úkraínumenn hafa lengi sagt að stjórnarskrá ríkisins meini kosningar á stríðstímum. Þá væri erfitt að halda þær, þar sem stór hluti landsins sé hernuminn og stór hluti þjóðarinnar hafi flúið til annarra ríkja á meðan stríðið geisar. Sjá einnig: Trump segir samningaviðræður um Úkraínustríðið hefjast strax Málpípur Kreml í fjölmiðlum í Rússlandi fóru mikinn í umræðuþáttum á ríkisreknum stöðvum í gærkvöldi. Var því meðal annars lýst yfir að einangrun Rússlands væri lokið og hlakkaði í þeim yfir því að Trump hefði hringt í Pútín, áður en hann hringdi í Selenskí. New York Times hefur eftir rússneskum þingmanni að Trump hafi rofið herkví Vesturlanda á Rússlandi. Annar sagði öruggt að hryllingur ríkti meðal ráðamanna í Evrópu og sá þriðji sagði að gærdagurinn hefði verið „dagur góðra frétta“. Öll ljós loga græn á rússneskum mörkuðum og viðskiptaleiðtogar eru sagðir vonast til þess að viðræðurnar muni fljótt leiða til þess að viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi verði felldar úr gildi. Gróf sjálfur undan eigin samingsstöðu Ekki liggur fyrir hvað Trump og Pútín ræddu sín á milli. Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Trumps, hélt ræðu í höfuðstöðvum NATO í gær þar sem hann ruddi af samningaborðinu nokkrum áhersluatriðum sem hægt hefði verið að nota í viðræðum við Rússa um frið. Má þar nefna aðild Úkraínu að NATO, það landsvæði sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu frá 2014 og framtíðarstuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. Í viðræðum hefði verið hægt að nota þessi þrjú atriði sem vogarafl gegn Rússum. Eins og fram kemur í greiningu Sky News óttast ráðamenn í Evrópu að skammtímalausn á átökunum í Úkraínu veiki stöðu Vesturlanda og verðlauni Pútín fyrir innrás hans. Auk þess sem líkur á öðru stríði í framtíðinni aukist. Sjá einnig: Danir telja Rússa geta hafið stórstríð í Evrópu á allra næstu árum Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í morgun (fimmtudag) að ekki væri hægt að þvinga slæmum samningi upp á Úkraínumenn. Varaði hann við því að slæmur samningur myndi líklega leiða til annars stríðs í náinni framtíð. Hann sagði einnig að það hefði verið betra ef Trump og Hegseth hefðu ekki látið svo mikið eftir Rússum, áður en einhverjar viðræður hefjast. Vísaði hann þar til mögulegrar aðildar Úkraínu að NATO og landsvæði sem Rússar hafa hernumið. Þá sagði Pistorius að Evrópa þyrfti að spila rullu í viðræðunum og varaði hann við því að fagna of snemma. Pútín væri enn að ógna Evrópu. Aðrir ráðamenn í Evrópu hafa slegið á svipaða strengi. Varaði við hættulegri tálsýn Varnarmálaráðherra Litháen sagði í morgun að það væri „tálsýn“ að Trump og Pútín gætu fundið lausn á stríðinu og að það gæti reynst banvæn gildra að falla í hana. Evrópa þurfi að ákveða hvað gerist í Evrópu, í samvinnu við Bandaríkin. Þá sagði hann einnig að Bandaríkjamenn hefðu ekki eingöngu verið lang stærsti aðilinn í NATO heldur hefðu Bandaríkin þar að auki borgað fyrir öryggi Evrópu og það þyrfti að breytast. Hegseth talaði einnig um það í ræðu sinni en þar er um að ræða langvarandi pirring meðal ráðamanna í Bandaríkjunum gagnvart litlum fjárútlátum ríkja Evrópu til varnarmála. Herir flestra Evrópuríkja hafa snarminnkað á undanförnum áratugum og geta heimsálfunnar til hergagnaframleiðslu sömuleiðis. Lengi hefur verið ljóst að Úkraínumenn séu tilbúnir til að gefa eftir landsvæði fyrir frið. Þeir segja þó að slíkum samningum þurfi að fylgja góðar og bindandi öryggistryggingar, til að tryggja að Rússar verji ekki næstu árum í að byggja upp heri sína á nýjan leik og gera aðra innrás. Selenskí hefur varað við því að án aðkomu Bandaríkjanna eigi ríki Evrópu erfitt með að veita Úkraínumönnum góðar öryggistryggingar. Án slíkra ráðstafana er, eins og áður hefur komið fram, fátt sem kemur í veg fyrir að Rússar byggi upp her sinn að nýju á nokkrum árum og geri aftur innrás í Úkraínu. Rússar væru í betri stöðu en Úkraínumenn til að byggja upp efnahag sinn og her á nýjan leik, vegna þeirra miklu skemmda sem árásir Rússa hafa valdið í Úkraínu. Erfitt gæti verið fyrir Úkraínu að stöðva aðra innrás við slíkar kringumstæður. Úkraínumenn óttast líka að án góðra öryggistryggingarmuni reynast erfitt að fá þá fjölmörgu Úkraínumenn sem hafa flúið land aftur heim. Utanríkisráðherra Noregs sagði í morgun að Úkraínumenn þyrftu að leiða friðarviðræður við Rússa. Það væri eina leiðin til að tryggja að þær heppnuðust og að sanngjarnt samkomulag, sem gæti tryggt frið til langs tíma, myndi nást. For peace talks on Ukraine to succeed, Ukraine must have a leading role.Any solution must be just, lasting, and guarantee Ukraine’s full independence, sovereignty, and freedom to choose its own path - including its alliances - both now and in the future.— Espen Barth Eide (@EspenBarthEide) February 13, 2025 Óttast hliðarlínuna Áður en símtal Trumps og Pútíns var opinberað í gær hafði Selenskí rætt við blaðamenn Economist. Þar kom meðal annars fram að Selenskí óttaðist að Úkraínumenn yrðu settir á hliðarlínurnar í viðræðum Bandaríkjamanna og Rússlands. Það eru áhyggjur sem ráðamenn í Evrópu deila. Sjá einnig: Ráðamenn í Evrópu uggandi vegna viðræðna Trump og Pútín Í viðtalinu sagði Selenskí að hann hefði ekki heyrt frá Trump-liðum um hvernig þeir ætluðu sér að binda enda á stríðið. Hann hefði eingöngu rætt nokkrum sinnum við Trump frá því hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Selenskí sagðist einnig ekki hafa fengið upplýsingar um hvaða hugmyndir Trump hefði varðandi friðarsáttmála. Hann sagðist búast við frekari viðræðum við Bandaríkjamenn í München í Þýskalandi en stór öryggisráðstefna hefst þar á morgun. Þar verða stórar sendinefndir frá bæði Úkraínu og Bandaríkjunum. Selenskí mun sækja ráðstefnuna og meðal annars funda með JD Vance, varaforseta Bandaríkjanna. Sá hefur lýst því yfir að honum gæti varla verið meira sama um hver örlög Úkraínu verða. Þar sagðist Selenskí ætla að ræða við Bandaríkjamenn og bjóst hann við því að fá betri yfirsýn yfir ætlanir Bandaríkjamanna. Hann varaði sérstaklega við því að Trump-liðar reyndu að setja Úkraínumenn á hliðarlínuna og benti á að það hefði Pútín reynt frá upphafi innrásarinnar. Selenskí óttast að Rússar gætu afvegaleitt Bandaríkjamenn. „Ef Rússland er skilið eitt eftir með Bandaríkjunum, Pútín með Trump, eða teymi þeirra, munu þeir fá rangar upplýsingar.“ Miklar væntingar til Úkraínumanna Í viðtalinu sagði forsetinn að honum þætti margir vænta mikils af fórnarlömbum innrásar. Vísaði hann meðal annars til ummæla Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að Úkraína yrði að gefa eitthvað eftir fyrir frið. Selenskí sagði það að vilja setjast niður með „morðingjanum“ [Pútín] vera mikla eftirgjöf. Hann sagði Úkraínumenn tilbúna til samninga en þeim þyrftu að fylgja öryggistryggingar. Þær væru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir aðra innrás, þar sem sagan hefði sýnt að Úkraínumenn gætu ekki treyst Rússum til að standa við orð sín. Spurður út í ummæli Keiths Kellogg, sérstaks erindreka Trumps um málefni Úkraínu, um að Úkraínumenn gætu haldið kosningar, [þetta var áður en Trump sagði það í gærkvöldi] spurði Selenskí hvernig það ætti til dæmis að vera hægt í borg eins og Karkív, þar sem Rússar varpa sprengjum á íbúa daglega. Meðal annars hafa Rússar ítrekað notað dróna til að varpa handsprengjum á óbreytta borgara og hafa hermenn birt fjölmörg slík myndbönd á samfélagsmiðlum. Selenskí sagðist ekki ætla að leyfa Pútín að nota nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna til að setja Úkraínumenn á hliðarlínuna. Hann ætlaði ekki að leyfa Pútín að vinna. Hvort hann geti komið í veg fyrir það verður þó að koma í ljós. Selenskí ítrekaði í morgun að Úkraínumenn þyrftu að sitja við samingaborðið. Þeir myndu ekki sætta sig við friðarsamkomulag sem þeir hefðu enga aðkomu að. Með sömu óásættanlegu kröfur og áður Í yfirlýsingu frá Kreml, sem send var út eftir símtalið í gær, stóð að Pútín hefði talað um þörf þess að tækla rætur „átakanna“ í Úkraínu. Það er fátt sem bendir til þess að Pútín hafi á einhverjum tímapunkti látið af markmiðum sínum með innrásinni í Úkraínu. Þau eru að útiloka alfarið aðild ríkisins að Atlantshafsbandalaginu (NATO), að takmarka verulega stærð herafla landsins og það að NATO hörfi alfarið frá Austur-Evrópu, eins og Pútín gerði ljóst í aðdraganda innrásarinnar. Þetta eru kröfur sem hafa hingað til þótt óásættanlegar fyrir Vesturlönd. Í samtali við Sky News segir Kira Rudik, úkraínsk þingkona, að margir Úkraínumenn séu að spyrja sig hvað þeir hafi gert rangt. „Við erum að berjast fyrir þjóð okkar, fyrir framtíð okkar, lýðræði og fullveldi. Við viljum lifa. Hver er okkar sök hérna?“ spurði hún. Hún spurði einnig hvað ætti að gerast fyrir alla þá sem hefðu orðið fyrir ódæðum Rússa frá því innrás þeirra hófst. Hún sagði sárt að heyra að einangrun Pútíns virtist lokið og að Bandaríkjamenn gætu ekki sagt hvaða öryggistryggingar Úkraínumönnum stæði til boða. Þeir gætu þrátt fyrir það slegið aðild að NATO af borðinu. Hvorki Trump né Hegseth hefðu sagt hvernig koma ætti í veg fyrir aðra árás á Úkraínu í framtíðinni. Rýnt í stöðuna í Úkraínu Úkraína Innrás Rússa í Úkraínu Rússland Bandaríkin Evrópusambandið NATO Donald Trump Vladimír Pútín Hernaður Fréttaskýringar Mest lesið „Við vitum að þessu er stjórnað af Áslaugu Örnu“ Innlent Lýsir ógnarástandi í bekk dóttur sinnar: „Ofbeldið er enn þá alvarlegra en fólk heldur“ Innlent Samúel Jói og Shamsudin-tvíburarnir á leið í steininn Innlent Svekktar og reiðar yfir viðbrögðum veitingamannsins Innlent Missa herbergið eftir allt saman: „Með eindæmum lítilmannlegt“ Innlent Jóhann Páll hækkar hreindýraveiðileyfi hressilega Innlent Ók á fólk á götum München: Segja að um árás sé að ræða og 27 eru særðir Erlent Vilja afnema sérréttindi opinberra starfsmanna Innlent Flugfélögum verði skylt að afhenda farþegalista Innlent Kristín til aðstoðar forsætisráðherra Innlent
Er það eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagðist í gær hafa átt gott og langt símtal við Pútín og að þeir hefðu lýst yfir vilja til að heimsækja hvorn annan og hefja fljótt viðræður sem eiga að binda enda á átökin í Úkraínu. Skömmu áður hafði varnarmálaráðherra Trumps sýnt á spil bakhjarla Úkraínu fyrir viðræðurnar og slegið nokkur veigamikil viðræðuatriði af samningaborðinu, án þess að Rússar þyrftu að gefa nokkuð eftir. Ráðamenn í Evrópu hafa gagnrýnt ummæli Trumps og Hegseths og Úkraínumenn óttast að verða settir á hliðarlínuna í viðræðum um eigin framtíð. Donald Trump ræddi við blaðamenn í Hvíta húsinu í gærkvöldi. Þar neitaði hann meðal annars að segja að Úkraína stæði jafnfætis Bandaríkjunum og Rússlandi í viðræðum um að binda enda á stríðið. Hann gaf einnig til kynna að Úkraínumenn þyrftu að halda kosningar, sem er í takt við yfirlýsingar frá Kreml um að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sé umboðslaus. Hér að neðan má sjá samantekt AP á ummælum Trumps frá gærkvöldinu um Úkraínu og Pútín. Úkraínumenn hafa lengi sagt að stjórnarskrá ríkisins meini kosningar á stríðstímum. Þá væri erfitt að halda þær, þar sem stór hluti landsins sé hernuminn og stór hluti þjóðarinnar hafi flúið til annarra ríkja á meðan stríðið geisar. Sjá einnig: Trump segir samningaviðræður um Úkraínustríðið hefjast strax Málpípur Kreml í fjölmiðlum í Rússlandi fóru mikinn í umræðuþáttum á ríkisreknum stöðvum í gærkvöldi. Var því meðal annars lýst yfir að einangrun Rússlands væri lokið og hlakkaði í þeim yfir því að Trump hefði hringt í Pútín, áður en hann hringdi í Selenskí. New York Times hefur eftir rússneskum þingmanni að Trump hafi rofið herkví Vesturlanda á Rússlandi. Annar sagði öruggt að hryllingur ríkti meðal ráðamanna í Evrópu og sá þriðji sagði að gærdagurinn hefði verið „dagur góðra frétta“. Öll ljós loga græn á rússneskum mörkuðum og viðskiptaleiðtogar eru sagðir vonast til þess að viðræðurnar muni fljótt leiða til þess að viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi verði felldar úr gildi. Gróf sjálfur undan eigin samingsstöðu Ekki liggur fyrir hvað Trump og Pútín ræddu sín á milli. Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Trumps, hélt ræðu í höfuðstöðvum NATO í gær þar sem hann ruddi af samningaborðinu nokkrum áhersluatriðum sem hægt hefði verið að nota í viðræðum við Rússa um frið. Má þar nefna aðild Úkraínu að NATO, það landsvæði sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu frá 2014 og framtíðarstuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. Í viðræðum hefði verið hægt að nota þessi þrjú atriði sem vogarafl gegn Rússum. Eins og fram kemur í greiningu Sky News óttast ráðamenn í Evrópu að skammtímalausn á átökunum í Úkraínu veiki stöðu Vesturlanda og verðlauni Pútín fyrir innrás hans. Auk þess sem líkur á öðru stríði í framtíðinni aukist. Sjá einnig: Danir telja Rússa geta hafið stórstríð í Evrópu á allra næstu árum Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í morgun (fimmtudag) að ekki væri hægt að þvinga slæmum samningi upp á Úkraínumenn. Varaði hann við því að slæmur samningur myndi líklega leiða til annars stríðs í náinni framtíð. Hann sagði einnig að það hefði verið betra ef Trump og Hegseth hefðu ekki látið svo mikið eftir Rússum, áður en einhverjar viðræður hefjast. Vísaði hann þar til mögulegrar aðildar Úkraínu að NATO og landsvæði sem Rússar hafa hernumið. Þá sagði Pistorius að Evrópa þyrfti að spila rullu í viðræðunum og varaði hann við því að fagna of snemma. Pútín væri enn að ógna Evrópu. Aðrir ráðamenn í Evrópu hafa slegið á svipaða strengi. Varaði við hættulegri tálsýn Varnarmálaráðherra Litháen sagði í morgun að það væri „tálsýn“ að Trump og Pútín gætu fundið lausn á stríðinu og að það gæti reynst banvæn gildra að falla í hana. Evrópa þurfi að ákveða hvað gerist í Evrópu, í samvinnu við Bandaríkin. Þá sagði hann einnig að Bandaríkjamenn hefðu ekki eingöngu verið lang stærsti aðilinn í NATO heldur hefðu Bandaríkin þar að auki borgað fyrir öryggi Evrópu og það þyrfti að breytast. Hegseth talaði einnig um það í ræðu sinni en þar er um að ræða langvarandi pirring meðal ráðamanna í Bandaríkjunum gagnvart litlum fjárútlátum ríkja Evrópu til varnarmála. Herir flestra Evrópuríkja hafa snarminnkað á undanförnum áratugum og geta heimsálfunnar til hergagnaframleiðslu sömuleiðis. Lengi hefur verið ljóst að Úkraínumenn séu tilbúnir til að gefa eftir landsvæði fyrir frið. Þeir segja þó að slíkum samningum þurfi að fylgja góðar og bindandi öryggistryggingar, til að tryggja að Rússar verji ekki næstu árum í að byggja upp heri sína á nýjan leik og gera aðra innrás. Selenskí hefur varað við því að án aðkomu Bandaríkjanna eigi ríki Evrópu erfitt með að veita Úkraínumönnum góðar öryggistryggingar. Án slíkra ráðstafana er, eins og áður hefur komið fram, fátt sem kemur í veg fyrir að Rússar byggi upp her sinn að nýju á nokkrum árum og geri aftur innrás í Úkraínu. Rússar væru í betri stöðu en Úkraínumenn til að byggja upp efnahag sinn og her á nýjan leik, vegna þeirra miklu skemmda sem árásir Rússa hafa valdið í Úkraínu. Erfitt gæti verið fyrir Úkraínu að stöðva aðra innrás við slíkar kringumstæður. Úkraínumenn óttast líka að án góðra öryggistryggingarmuni reynast erfitt að fá þá fjölmörgu Úkraínumenn sem hafa flúið land aftur heim. Utanríkisráðherra Noregs sagði í morgun að Úkraínumenn þyrftu að leiða friðarviðræður við Rússa. Það væri eina leiðin til að tryggja að þær heppnuðust og að sanngjarnt samkomulag, sem gæti tryggt frið til langs tíma, myndi nást. For peace talks on Ukraine to succeed, Ukraine must have a leading role.Any solution must be just, lasting, and guarantee Ukraine’s full independence, sovereignty, and freedom to choose its own path - including its alliances - both now and in the future.— Espen Barth Eide (@EspenBarthEide) February 13, 2025 Óttast hliðarlínuna Áður en símtal Trumps og Pútíns var opinberað í gær hafði Selenskí rætt við blaðamenn Economist. Þar kom meðal annars fram að Selenskí óttaðist að Úkraínumenn yrðu settir á hliðarlínurnar í viðræðum Bandaríkjamanna og Rússlands. Það eru áhyggjur sem ráðamenn í Evrópu deila. Sjá einnig: Ráðamenn í Evrópu uggandi vegna viðræðna Trump og Pútín Í viðtalinu sagði Selenskí að hann hefði ekki heyrt frá Trump-liðum um hvernig þeir ætluðu sér að binda enda á stríðið. Hann hefði eingöngu rætt nokkrum sinnum við Trump frá því hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Selenskí sagðist einnig ekki hafa fengið upplýsingar um hvaða hugmyndir Trump hefði varðandi friðarsáttmála. Hann sagðist búast við frekari viðræðum við Bandaríkjamenn í München í Þýskalandi en stór öryggisráðstefna hefst þar á morgun. Þar verða stórar sendinefndir frá bæði Úkraínu og Bandaríkjunum. Selenskí mun sækja ráðstefnuna og meðal annars funda með JD Vance, varaforseta Bandaríkjanna. Sá hefur lýst því yfir að honum gæti varla verið meira sama um hver örlög Úkraínu verða. Þar sagðist Selenskí ætla að ræða við Bandaríkjamenn og bjóst hann við því að fá betri yfirsýn yfir ætlanir Bandaríkjamanna. Hann varaði sérstaklega við því að Trump-liðar reyndu að setja Úkraínumenn á hliðarlínuna og benti á að það hefði Pútín reynt frá upphafi innrásarinnar. Selenskí óttast að Rússar gætu afvegaleitt Bandaríkjamenn. „Ef Rússland er skilið eitt eftir með Bandaríkjunum, Pútín með Trump, eða teymi þeirra, munu þeir fá rangar upplýsingar.“ Miklar væntingar til Úkraínumanna Í viðtalinu sagði forsetinn að honum þætti margir vænta mikils af fórnarlömbum innrásar. Vísaði hann meðal annars til ummæla Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að Úkraína yrði að gefa eitthvað eftir fyrir frið. Selenskí sagði það að vilja setjast niður með „morðingjanum“ [Pútín] vera mikla eftirgjöf. Hann sagði Úkraínumenn tilbúna til samninga en þeim þyrftu að fylgja öryggistryggingar. Þær væru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir aðra innrás, þar sem sagan hefði sýnt að Úkraínumenn gætu ekki treyst Rússum til að standa við orð sín. Spurður út í ummæli Keiths Kellogg, sérstaks erindreka Trumps um málefni Úkraínu, um að Úkraínumenn gætu haldið kosningar, [þetta var áður en Trump sagði það í gærkvöldi] spurði Selenskí hvernig það ætti til dæmis að vera hægt í borg eins og Karkív, þar sem Rússar varpa sprengjum á íbúa daglega. Meðal annars hafa Rússar ítrekað notað dróna til að varpa handsprengjum á óbreytta borgara og hafa hermenn birt fjölmörg slík myndbönd á samfélagsmiðlum. Selenskí sagðist ekki ætla að leyfa Pútín að nota nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna til að setja Úkraínumenn á hliðarlínuna. Hann ætlaði ekki að leyfa Pútín að vinna. Hvort hann geti komið í veg fyrir það verður þó að koma í ljós. Selenskí ítrekaði í morgun að Úkraínumenn þyrftu að sitja við samingaborðið. Þeir myndu ekki sætta sig við friðarsamkomulag sem þeir hefðu enga aðkomu að. Með sömu óásættanlegu kröfur og áður Í yfirlýsingu frá Kreml, sem send var út eftir símtalið í gær, stóð að Pútín hefði talað um þörf þess að tækla rætur „átakanna“ í Úkraínu. Það er fátt sem bendir til þess að Pútín hafi á einhverjum tímapunkti látið af markmiðum sínum með innrásinni í Úkraínu. Þau eru að útiloka alfarið aðild ríkisins að Atlantshafsbandalaginu (NATO), að takmarka verulega stærð herafla landsins og það að NATO hörfi alfarið frá Austur-Evrópu, eins og Pútín gerði ljóst í aðdraganda innrásarinnar. Þetta eru kröfur sem hafa hingað til þótt óásættanlegar fyrir Vesturlönd. Í samtali við Sky News segir Kira Rudik, úkraínsk þingkona, að margir Úkraínumenn séu að spyrja sig hvað þeir hafi gert rangt. „Við erum að berjast fyrir þjóð okkar, fyrir framtíð okkar, lýðræði og fullveldi. Við viljum lifa. Hver er okkar sök hérna?“ spurði hún. Hún spurði einnig hvað ætti að gerast fyrir alla þá sem hefðu orðið fyrir ódæðum Rússa frá því innrás þeirra hófst. Hún sagði sárt að heyra að einangrun Pútíns virtist lokið og að Bandaríkjamenn gætu ekki sagt hvaða öryggistryggingar Úkraínumönnum stæði til boða. Þeir gætu þrátt fyrir það slegið aðild að NATO af borðinu. Hvorki Trump né Hegseth hefðu sagt hvernig koma ætti í veg fyrir aðra árás á Úkraínu í framtíðinni.