Ríkissáttasemjari lagði fram innanhússtillögu í deilu kennara við sveitarstjórnir og ríkið í dag. Kennarar samþykktu tillöguna en sáttasemjari gaf hinu opinbera frest til klukkan tíu í kvöld til að opinbera afstöðu sína. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir fresti til hádegis á morgun en fresturinn var háður samþykki kennara. Viðræðunefnd KÍ veitti samþykki fyrir frestuninni á ellefta tímanum í kvöld.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, staðfestir að verkfall sé hafið í fimm framhaldsskólum og einum tónlistarskóla. Þeir eru Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Borgarholtsskóli, Verkmenntaskóli Austurlands og Fjölbrautaskóli Snæfellinga auk Tónlistarskólans á Akureyri.
Þessi verkföll ná til félagsmanna í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum sem og félagsmanna í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum sem starfa í ofangreindum skólum
Félagsmenn í Félagi leikskólakennara, sem starfa í Leikskóla Snæfellsbæjar, hafa verið í verkfalli síðan 1. febrúar og munu verða áfram.