Fótbolti

Sjáðu markið: Tók Orra enga stund að stimpla sig inn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Orri Steinn spakur eftir mark gærkvöldsins.
Orri Steinn spakur eftir mark gærkvöldsins. Juanma - UEFA/UEFA via Getty Images

Orri Steinn Óskarsson heldur áfram að nýta fáar mínútur í treyju Real Sociedad á Spáni vel. Orri skoraði síðasta mark liðsins í 5-2 sigri á Midtjylland í Evrópudeildinni í gærkvöld, sjö mínútum eftir að hafa komið af bekknum.

Sociedad leiddi einvígið 2-1 eftir fyrri leikinn í Danmörku og byrjuðu vel í Baskalandi í gær. Aðeins 18 mínútur voru liðnar á leikinn þegar staðan var 2-0 þökk sé mörkum Brais Méndez og Luka Sucic.

Tvö mörk á stundarfjórðungskafla frá dönsku gestunum breytti stöðunni í 2-2 á 38. mínútu, og munaði aðeins einu marki í einvíginu. Sucic skoraði hins vegar öðru sinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Klippa: Mark Orra Steins í Evrópudeildinni

Mikel Oyarzabal skoraði fjórða mark Sociedad af vítapunktinum á 73. mínútu en skömmu áður hafði leikmaður Midtjylland fengið að líta rauða spjaldið.

Orri Steinn leysti Oyarzabal af á 83. mínútu og negldi síðasta naglann í kistu Dananna á 90. mínútu. Annar varamaður, Armeninn Arsen Zakharyan, gaf boltann laglega fyrir, beint í hlaupalínu Orra sem lagði boltann í markið af markteig, að framherja sið.

Orri hefur verið inn og út úr liði Sociedad eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá FCK í Danmörku í sumar. Hann hefur skorað fjögur mörk í sjö leikjum í Evrópudeildinni og þrjú mörk í 16 leikjum í spænsku deildinni.

Mörkin úr leik gærkvöldsins, í lýsingu Henrys Birgis Gunnarssonar, má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×