Skoðun

Fyrir­mynd í kennslu og fræða­starfi – af hverju við styðjum Silju Báru

Valgerður Björk Pálsdóttir og Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir skrifa

Góðir kennarar skilja eftir sig spor – ekki bara í námsbókum heldur í því hvernig þau hvetja nemendur sína til að hugsa, eflast og þroskast. Þannig reyndist Silja Bára Ómarsdóttir okkur einmitt. Hún kenndi okkur ekki bara efnið heldur hvernig á að nálgast stjórnmálafræði af metnaði og gagnrýni. Fyrir okkur – og svo marga aðra nemendur í stjórnmálafræði – var hún fyrirmynd sem sýndi að það er hægt að láta rödd sína heyrast í fræðasamfélaginu.

Við höfum báðar verið í doktorsnámi síðustu ár og sinnt kennslu í stjórnmálafræði. Með þeirri reynslu höfum við skilið enn betur hversu mikilvægt er að hafa leiðtoga sem stendur með akademísku samfélagi og hlustar á þau sem þar starfa. Silja Bára hefur lengi talað fyrir því að kennarar og fræðafólk fái betra starfsumhverfi, að háskólinn fái alvöru fjárframlög til að standa undir hlutverki sínu og að álag í kennslu og rannsóknum sé viðráðanlegt og sjálfbært. Hún veit hversu mikilvægt er að skapa umhverfi þar sem bæði nemendur og kennarar geta vaxið og notið sín.

Hún hefur líka alltaf talað fyrir því að háskólasamfélagið þurfi að vera aðgengilegt og fjölbreytt. Þekkingin sem við byggjum upp innan HÍ á ekki að vera lokuð inni í akademískum turni – hún á að nýtast samfélaginu. Silja Bára hefur sjálf verið einstaklega öflug í að koma fram í fjölmiðlum og miðla akademískri þekkingu sinni á fræðandi og skemmtilegan hátt. Hún hefur þannig sýnt að fræðasamfélagið á ekki að vera einangrað heldur lifandi hluti af þjóðfélagsumræðunni. Háskóli Íslands þarf rektor sem hefur skýra sýn á framtíðina, en um leið einhvern sem þekkir vel til grasrótarinnar – hvernig er raunverulega að vera nemandi, kennari eða rannsakandi innan háskólans. Það gerir Silja Bára. Hún veit hvað þarf til að byggja upp sterkara og réttlátara háskólasamfélag, og þess vegna styðjum við hana af heilum hug.

Höfundar eru doktorsnemar við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×