Körfubolti

„Ég veit ekki hvort menn eru farnir að horfa of langt fram á við“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, trúir því ekki að þessi frammistaða sé það sem hans menn vilja standa fyrir. 
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, trúir því ekki að þessi frammistaða sé það sem hans menn vilja standa fyrir.  Vísir/Anton Brink

„Við vorum alls ekki góðir í kvöld og getum sagt að það eina sem við tökum með úr þessum leik eru tvö stig“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, eftir að hafa séð sína menn kreista út 85-81 sigur gegn föllnu liði Hauka í nítjándu umferð Bónus deildar karla.

„Við vorum ólíkir sjálfum okkur og mér fannst svipað upp á teningunum á móti ÍR [í síðasta leik]. Ég veit ekki hvort menn eru farnir að horfa of langt fram á við eða við séum orðnir værukærir eftir að hafa unnið einhverja leiki, en við þurfum allavega að spila töluvert mikið betur ef við ætlum að gera eitthvað í vetur“ hélt hann svo áfram.

Haukar leiddu nánast allan leikinn og voru átta stigum yfir þegar fjórði leikhluti hófst, en Valsmönnum tókst að snúa leiknum við á síðustu stundu.

„Við erum bara heppnir að fara með sigurinn af hólmi og tökum hann. Hann telur náttúrulega eins mikið og aðrir en frammistaðan böggar mann“

Valur á framundan leiki gegn Grindavík og Tindastóli í lokaumferðum deildarinnar áður en úrslitakeppnin hefst. Ljóst er að mikið þarf að lagast ef meistararnir ætla að verja titilinn í vor.

„Ég held að það sé bara sitt lítið af hverju [sem þarf að lagast]. Ég trúi allavega ekki að þetta sé það sem við viljum standa fyrir þannig að ég á ekki von á öðru en að mínir menn muni kveikja á sér og mæta klárir á næstu æfingu“ sagði Finnur Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×