Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ásamt Skattinum farið undanfarna daga í sameiginlegt eftirlit á tæplega eitt hundrað veitingastaði til að kanna tilskilin leyfi og hvort rétt væri staðið að rekstri og starfsmannamálum.
Í fréttatilkynningu frá lögreglunni kom fram að eftirlitið næði meðal annars til skattaskila, atvinnuréttinda starfsmanna og brunavarna. Þá segir að í flestum tilfellum hafi verið farið að lögum og reglum en þó voru allmargir veitingastaðir sem þurfti að hafa afskipti af.

Þá sneri það helst að því að starfsfólk var ekki á launaskrá, voru án réttinda til vinnu hérlendis og skattskilum var ábótavant.
Á annan tug mála var vísað til frekari skoðunar hjá heilbrigðisyfirvöldum og eldvarnareftirliti slökkviliðsins.
Lögreglan segir í tilkynningunni að eftirlitinu verði fylgt eftir.