Sport

Erna Sól­ey sex­tánda á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Erna Sóley Gunnarsdóttir leggur hér allt í eitt kasta sinna á EM í Apeldoorn í dag.
Erna Sóley Gunnarsdóttir leggur hér allt í eitt kasta sinna á EM í Apeldoorn í dag. Getty/Michael Steele

Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti í dag á Evrópumótinu innanhúss í frjálsum íþróttum í Apeldoorn í Hollandi.

Erna hafnaði í 16. sæti af átján keppendum en lengsta kast hennar var 16,74 metrar. Því náði hún í annarri tilraun eftir að hafa kastað fyrst 16,60 metra. Þriðja og síðasta kastið var ógilt.

Íslandsmet Ernu innanhúss er 17,92 metrar og það hefði skilað henni 9. sæti í dag. Aðeins átta efstu keppendurnir í undankeppninni komust í úrslit og var sú síðasta inn í úrslitin hin þýska Alina Kenzel sem kastaði 18,31 metra.

Heimakonan Jessica Schilder, tvöfaldur Evrópumeistari utanhúss, kastaði lengst í undankeppninni eða 19,92 metra, tæpum metra lengra en Yemisi Ogunleye frá Þýskalandi.

Erna hafnaði í sama sæti og Daníel Ingi Egilsson sem á fimmtudaginn hafnaði í 16. sætinu í langstökki.

Þriðji og síðasti keppandi Íslands á EM er Baldvin Þór Magnússon en hann keppir í undanriðlum 3.000 metra hlaups í dag klukkan 11:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×