„Já þetta er gleðiefni, og það skiptir náttúrulega mjög miklu máli að þetta er ekki síst á forsendum Úkraínu,“ sagði Þorgerður.
Taka þurfi skref sem leiði til varanlegs og réttláts friðar í Úkraínu.
„Bandaríkin hafa gefið út yfirlýsingu um að þau ætli að halda áfram að styðja við Úkraínu og veita þeim aðgang að öllum gögnum og vopnum, en það skiptir líka máli að þetta er til þess að tryggja frelsi og frið í Úkraínu, tryggja öryggi Evrópu,“ segir Þorgerður.
Rússar hafi getað stoppað hvenær sem er
Þorgerður segir að nú sé boltinn hjá Rússum.
„Núna reynir auðvitað á Rússa, að þeir raunverulega sýni þennan friðarvilja, boltinn er svolítið þar,“ segir hún.
Hún segir að Rússar hafi alltaf getað stoppað stríðið með því að hætta og draga herlið sitt til baka. Núna verði þeir að sýna að það sé raunverulegur vilji til friðar og öryggis í álfunni.
Þorgerður Katrín kynnti í ríkisstjórn í dag tillögu að mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands.
Meðal aðgerða sem lagðar eru til er að ómannaður eftirlitskafbátur verði tekinn í notkun, en sá bátur yrði starfræktur í samvinnu við Landhelgisgæsluna til að efla eftirlit með sæstrengjum og höfnum.
Jafnframt er lögð til uppsetning á samþættingarmiðstöð öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, en það yrði gert í samvinnu við ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæsluna og CERT-IS. Þar að auki yrði ráðist í kaup á búnaði til að nema og stöðva ólöglega dróna.