Elísabet segir samfélagslögreglu aðallega sinna löggæslu í forvarnarskyni. Í fyrra hafi fjármagn til verkefnisins verið aukið og þá hægt að tvöfalda fjölda lögreglumanna sem sinna þessu verkefni. Rætt var við Elísabetu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kjölfar þess að birt var viðtal við móður drengs sem ráðist var á í Breiðholti í gær.
„Þá getum við verið á fleiri stöðum í einu,“ segir Elísabet og að með fjármagninu hafi einnig verið hægt að koma á kvöldvakt sem fari á milli „heitra reita“ og eltir hópamyndun. Með það að markmiði að efla tengsl við hópana. Hún segir þarna koma sterkt inn samstarf lögreglunnar við Flotann, flakkandi félagsmiðstöðvar.
Elísabet segir mikilvægt að allt samfélagið takist á við vanda barnanna saman. Það þurfi ekki bara að horfa til þeirra barna sem ekki þora út, heldur líka að líta til þeirra barna sem beita ofbeldi og reyna að kryfja það og koma í veg fyrir það. Tilgangur samfélagslögreglunnar sé að efla tengsl, við öll börn.