Erlent

„Yfir­þyrmandi ban­vænt afl“ Banda­ríkjanna varð fleiri leið­togum Húta að bana

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bandarískir embættismenn segjast hafa drepið marga leiðtoga Hútanna.
Bandarískir embættismenn segjast hafa drepið marga leiðtoga Hútanna. AP

Umfangsmiklar loftárásir Bandaríkjanna á skotmörk í Jemen í gærkvöld urðu nokkrum leiðtogum Húta að bana að sögn þjóðaröryggisráðgjafa. Donald Trump Bandaríkjaforseti hét því að beita Húta „yfirþyrmandi banvænu afli“ þar til þeir létu af árásum sínum á skip á Rauðahafi.

Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði í viðtali við bandaríska miðilinn ABC að árásirnar hefðu verið hnitmiðaðar en áhrifamiklar.

„Þetta var ekki einhver nálastunga, fram og til baka neitt, sem reyndist algjörlega ófullnægjandi,“ sagði Mike Waltz og gagnrýndi í leiðinni viðbrögð Joe Bidens forvera Trumps við aukinni dirfsku Hútanna í Rauðahafi.

„Þetta var yfirþyrmandi svar sem hafði fleiri leiðtoga Hútanna að skotmarki og varð þeim að bana (e. took them out). Munurinn hér er, fyrir það fyrsta að ráðast að leiðtogum Húta og annað að draga Írani til ábyrgðar,“ sagði hann svo.

Fram hefur komið að bandarískir embættismenn segi að árásirnar gætu haldið áfram í nokkrar vikur en að það hengi allt á viðbrögðum Húta. Vopnageymslur Húta séu djúpt grafin í jörðu og erfiðlega hefur gengið að finna þær. Þær eru taldnar framleiddar í niðurgröfnum verksmiðjum og þeim er einnig smyglað til landsins frá Íran, dyggum stuðningsaðilum sveitanna.

31 hið minnsta liggur í valnum eftir loftárásir næturinnar og segja Hútar að þar sé að mestu um að ræða konur og börn. Leiðtogar Húta heita því að svara fyrir árásirnar. Hútar fara með völd í Sanaa, höfuðborgar Jemen, og stórum hlutum landsins norðan- og vestanverðs. Þeir hafa háð blóðuga styrjöld við viðurkennd stjórnvöld í Íran um árabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×