Manchester City hefur komist í úrslit ensku bikarkeppninnar tvisvar sinnum í röð og stefnir hraðbyri þangað aftur. Liðið mætti Bournemouth í 8-liða úrslitum í dag og þrátt fyrir að skora aðeins tvö mörk voru yfirburðir City algjörir í 1-2 sigri.
Evanilson kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik eftir undirbúning frá Justin Kluivert en skömmu áður hafði Erling Haaland brennt af víti fyrir City.

Gestirnir tóku svo öll völd á vellinum í seinni hálfleik en Bournemouth náði ekki einni einustu snertingu í vítateig City í seinni hálfleik.
Varamaðurinn Nico O'Reilly kom inn á í hálfleik og lagði upp mark fyrir Erling Haaland á 49. mínútu. Hann lagði svo upp sitt annað mark á 63. mínútu fyrir annan varamann, Omar Marmoush, og þar við sat.
Marmoush kom inn á fyrir Haaland sem meiddist á ökkla en ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu alvarleg meiðslin eru.
Manchester City er því komið í 4-liða úrslit enska bikarsins, ásamt Aston Villa, Crystal Palace og Nottingham Forest.