Körfubolti

„Undir okkur komið að hamra járnið á meðan það er heitt“

Aron Guðmundsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls er klár í komandi úrslitakeppni sem hefst í kvöld í Bónus deild karla.
Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls er klár í komandi úrslitakeppni sem hefst í kvöld í Bónus deild karla. Vísir/Jón Gautur

Pétur Rúnar Birgis­son, leik­maður deildar­meistara Tindastóls í Bónus deild karla, segir liðið þurfa að stimpla sig inn af krafti strax í fyrsta leik sem sigur­strang­legra liðið gegn Kefla­vík í fyrstu um­ferð í úr­slita­keppni deildarinnar sem hefst í kvöld. Ný­leg úr­slit í Bónus deild kvenna virki á Stólana sem víti til varnaðar.

„Við komum klár­lega inn sem sigur­strang­legra liðið en við höfum spilað þrjá leiki við þá á tíma­bilinu og þeir hafa unnið okkur í tví­gang,“ segir Pétur Rúnar um ein­vígið gegn Kefla­vík í sam­tali við íþrótta­deild. „Við þurfum bara að mæta klárir. Það er ekkert annað sem kemur til greina. Ef við ætlum okkur að mæta sofandi inn í þetta ein­vígi þá eru þeir með hæfi­leika út um allt í sínum hópi sem getur verið erfitt að stöðva. Það er því undir okkur komið að hamra járnið á meðan að það er heitt. 

Það er eins og við höfum náð að fín­stilla okkur aðeins betur heldur en þeir og viljum ekki gefa þeim séns á því að það fari eitt­hvað að smella hjá þeim núna á næstu dögum. Við þurfum að mæta klárir og stimpla okkur inn með krafti strax í fyrsta leik.“

Stólarnir fóru auð­veld­lega í gegnum Kefla­vík í Síkinu fyrir ekki svo löngu síðan en ný­leg úr­slit í fyrstu leikjum í úr­slita­keppni Bónus deildar kvenna virka á þá sem víti til varnaðar um að ekki sé hægt að ganga að neinu vísu.

„Við erum búnir að sjá það í Bónus deild kvenna að liðið í sæti átta, Grinda­vík, vann deildar­meistara Hauka í fyrsta leik þeirra. Við viljum ekki að það endur­taki sig hjá okkur í kvöld. Við þurfum því að mæta klárir.“

Meðbyrinn með Tindastóls liðinu hefur verið mikill á yfir­standandi tíma­bili, gjörólík staða en sú sem blasti við liðinu í úr­slita­keppni síðasta tíma­bils þar sem að liðið var langt frá sínu besta og endaði í 7.sæti deildar­keppninnar. Pétur finnur mun á því hvernig lið Tindastóls kemur inn í úr­slita­keppnina núna.

„Já klár­lega. Tíma­bilið í fyrra var erfitt, mikið um lægðir þar en núna hefur þetta verið stöðugra og við erum, að ég tel, á mjög góðum stað og ætlum að sýna fram á það út tíma­bilið. Menn eru spenntir. Við fengum smá smjörþefinn af úr­slita­keppni stemningunni í leiknum gegn Val í Síkinu í loka­um­ferðinni.“

Hafa leik­mennirnir sem komu nýir inn í ykkar lið á þessu tíma­bili fengið and­legan undir­búning fyrir úr­slita­keppnina í Síkinu og stemninguna sem því fylgir?

„Ekki þannig en þeir hafa nú margir hverjir spilað á ansi háu gæða­stigi úti og ætli þeir hafi ekki spilað í stór­borgum hér og þar í mikilli stemningu. Þeir munu hins vegar sjá að það er hægt að mynda ansi góða stemningu hér heima á okkar leikjum og verða vonandi bara and­lega klárir í þetta.“

Fyrsti leikur Tindastóls og Kefla­víkur í úr­slita­keppni Bónus deildar karla í körfu­bolta verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport 5 í kvöld og hefst klukkan sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×