RÚV greinir frá þessu og hefur samkvæmt heimildum að um sé að ræða Oxycontin-töflur í hæsta fáanlega styrk. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, vildi ekki tjá sig efnislega um málið en gaf upp að fjórtán einstaklingar væru í gæsluvarðhaldi í tengslum við aðskilin mál sem öll varði innflutning fíkniefna. Fangaklefar lögreglunnar á Suðurnesjum væru meira og minna alltaf fullir vegna mikils fíkniefnainnflutnings í gegnum flugvöllinn.
Aukinn vandi meðal ungs fólks
Oxycontin er tegund ávanabindandi og einkar hættulegra ópíóða sem hafa valdið miklum usla víða um heim. Af 56 lyfjatengdum andlátum á Íslandi árið 2023 voru 34 vegna ópíóíða-eitrana, samkvæmt tölfræði Landlæknisembættisins. Misnotkun ópíóíðalyfja er vaxandi vandamál á heimsvísu og eru vísbendingar um aukinn ópíóðavanda hjá ungu fólki á Íslandi.
Ópíóðar eru sérstaklega hættulegir vegna þess að ávanabinding er mikil og þekkt að einstaklingar þrói hratt með sér þol og fíkn í lyfin. Leiðir það til þess að notaðir eru sífellt stærri og lífshættulegri skammtar, líkt og fram kemur í samantekt heilbrigðisráðuneytisins.
Hættulegasta aukaverkun slíkra lyfja er öndunarbæling en með notkun stórra skammta eykst áhætta á ofskömmtun og öndunarstoppi.