Skoðun

Gefðu fimmu!

Ágúst Arnar Þráinsson skrifar

Um daginn sá ég myndband sem fékk mig til að staldra við. Þar sást kennari ganga um skólann sinn, gefa nemendum og samstarfsfólki fimmur og faðma – og það var eins og andrúmsloftið breyttist. Bros blossuðu upp, hlátur bergmálaði og allir virtust aðeins léttari á sér. Þetta var ekki flókið. Ekki dýrt. Bara manneskja sem valdi að veita öðrum athygli og jákvæða orku. Og mér fannst þetta æðislegt.

Við lifum á tímum þar sem streita, kvíði og félagsleg einangrun eru allt of algeng. Fólk talar um vöntun á tengslum og að við séum alltaf á hraðferð. En hvað ef við gætum breytt stemningunni í kringum okkur með litlum, einföldum hlutum? Eins og fimmunni.

Að gefa fimmu er meira en bara að skella saman lófum. Það er viðurkenning. Það segir: „Ég sé þig.“ Það skapar tengingu, jafnvel í stutta stund. Þetta er eitthvað sem börn gera náttúrulega, en fullorðna fólkið gleymir oft – jafnvel kennarar og aðrir sem vinna með fólki. En áhrifin eru raunveruleg, og þau smita út frá sér.

Ég held að við ættum öll að temja okkur það að gefa fimmur oftar. Ekki bara í frístundastarfi og skólum, heldur á vinnustöðum, heima, í ræktinni eða bara í göngutúr. Það kostar ekkert að vera aðeins meira til staðar. Kannski væri heimurinn aðeins betri ef við gæfum öll hvort öðru fimmu.

Höfundur er sjálfskipaður talsmaður fimmunar.

Til útskýringar fimma er þegar tvær manneskjur mætast og rétta aðra höndina upp og slá lófum saman.

high five útskýrt af Oxford orðabókinni

a gesture of celebration or greeting in which two people slap each other's palms with their arms raised.




Skoðun

Sjá meira


×