„Því hún hefur í raun verið með okkur frá upphafi. Byrjaði reyndar að segja við okkur: Þið vitið að þetta hefur verið reynt margoft áður? En aldrei tekist,“ segir Bjarni og hlær.
En viti menn; Svo sannarlega tókst teyminu vel upp því í dag eru um 300 notendur að Jónsbók; hugbúnaði sem styðst við gervigreind til að létta lögmönnum og öðrum vinnuna við íslenska lagasafnið. Og meira að segja lagabákn EES líka, sem er heilmikið.
Fyrirtækið var þó aðeins stofnað í fyrra.
„Við segjum oft að kerfið sé eins og ótrúlega duglegur og nákvæmur laganemi sem þú þarft samt alltaf að tékka aðeins af. Því samvinnan með gervigreindinni byggir svolítið á því að vera vakandi yfir því hvort eitthvað mögulega gæti verið véfengjanlegt miðað við þær niðurstöður sem gervigreindin skilar,“ segir Bjarni.
Í Atvinnulífinu í dag og á morgun, verður fjallað um gervigreind með áherslu á hversu vel undirbúnir stjórnendur í íslensku atvinnulífi virðast vera fyrir það sem koma skal.

Frábær vöxtur
Bjarni er lauk hugbúnaðarverkfræði og eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Hélt þá til Zurich í Sviss þar sem hann lauk meistaragráðu í eðlisfræði í ETH tækniháskólanum 2017.
En það var einmitt í þeim skóla sem himnarnir opnuðust fyrir Bjarna hvað varðar gervigreindina.
„Því það gekk allt út á gervigreindina þar.“
Bjarni sótti fjarnám í gervigreind í Stanford háskólanum 2023-2024. Sem nýttist vel því að þegar prótótýpan af Jónsbók var tilbúin, fékk teymið kennara í Stanford til að rýna í það og gefa endurgjöf. Sem nýttist þeim vel.
„Staðan í dag er þannig að við settum okkur það markmið fyrir árið 2025 að selja 300 notendaleyfi af Jónsbók. Sem okkur fannst nokkuð brött áætlun. En erum búin að ná nú þegar,“ segir Bjarni. Nokkuð gott miðað við það að enn er bara apríl mánuður!
Bjarni segir fyrirtækið hafa verið stofnað vorið 2024 og prótótýpan farið í sölu haustið 2024. Til að byrja með ákvað teymið að fjármagna sig sjálf en nú sé reksturinn farinn að skila nægilegum tekjum til að geta greitt teyminu einhver laun. Bjarni starfar sem framkvæmdastjóri, Ágúst sem vöruþróunarstjóri, Thelma sem lögmaðurinn og um borð er líka Bjarni Benediktsson tæknistjóri.
En þýðir þetta þá að stjórnendur og atvinnugreinar á Íslandi eru svona móttækileg og tilbúin fyrir gervigreindina og því sem henni fylgir?
„Ég held reyndar að það sé allur gangur á því og mögulega snúist það svolítið um það hvað verið er að bjóða. Ef í boði er hugbúnaðarlausn sem er tilbúin og styðst við gervigreind tel ég stjórnendur vera nokkuð opna fyrir lausninni. Því þeir vilja sjá ábatann skila sér nokkurn veginn strax, eða helst ekki á lengri tíma en þremur mánuðum,“ segir Bjarni og bætir við:
„En ef lausnin er ekki tilbúin og ábatinn ekki í sjónmáli, held ég að mörgum stjórnendum finnist gervigreindin einfaldlega vera eitthvað sem er of stórt og viðamikið verkefni að ráðast í. Sem kalli á þróun og kostnað.“
Sem svo sem á vel við, því Bjarni segir rekstur Raxiom í raun snúast mikið um þróunarvinnuna sem enn er í gangi á Jónsbók.
„Við erum svo sem farin að greiða okkur laun. En þau eru enn sem komið er undir lágmarkslaunum því fyrst og fremst viljum við nýta fjármagnið í áframhaldandi þróun.“
Bjarni segist líka ánægður með stjórnvöld þegar kemur að notkun gervigreindarinnar.
„Það hefur í raun komið mér skemmtilega á óvart hversu opin stjórnsýslan er til að nota gervigreindina. Það sem stjórnvöld þurfa kannski að hafa skýrar er að láta vita hvort stefnan sé sú að stjórnsýslan nýti gervigreindina. Eins og þetta er í dag, er notkun gervigreindarinnar meira undir fólkinu sjálfu komið.“

Sumir að keppa við gervigreindina
En umræðan er hversu tilbúnir stjórnendur og íslenskt atvinnulíf séu fyrir gervigreindina. Sem þó þegar er að tröllríða öllu.
„Það hefur orðið rosalega mikil viðhorfsbreyting á síðustu árum. Sérstaklega eftir að AI ChatGpt kom til sögunnar og sífellt fleiri eru farnir að átta sig á því hvernig hægt er að nýta gervigreindina,“ segir Bjarni en bætir við:
Sumir eru samt einhvern veginn að keppa við gervigreindina.
Svona eins og þeir séu í öðru liði.
Vilja fyrst og fremst finna villur og vankanta.“
Að mati Bjarni er þetta þó eitthvað sem líklega mun breytast. Sérstaklega þegar fleiri fara að átta sig á því hvernig þú getur unnið með gervigreindinni.
„Gervigreindin er í raun eins og sérfræðingur sem þú hefur fullan aðgang að sem aðstoðarmaður. Mál sem áður tók einhverja daga að leysa, getur þú núna leyst á nokkrum klukkustundum. Færnin þarf samt að vera til staðar þannig að fólk læri á hvernig við þurfum að nota gervigreindina og ekki gleypa við öllu án athugasemda,“ segir Bjarni og bætir við:
Sjálfur bið ég gervigreindina til dæmis oft um heimildir og skoða þær síðan sérstaklega til að átta mig betur á því hversu góðar þær eru.“
Að vinna með gervigreind segir Bjarni líka fela í sér ákveðna breytingu í verklagi.
„Og eins og eðlilegt er, getur það tekið okkur smá tíma að venjast nýju verklagi. Ég myndi segja nokkra mánuði miðað við mína eigin reynslu.“
Til að átta sig betur á því hvernig Jónsbókin virkar, má nefna að notendur nýta gervigreind hugbúnaðarins til að búa til réttarheimildir, vinna minnisblöð, bæta fleiri skjölum við mál, útbúa stefnur og fleira.
„Í upphafi vorum við reyndar með miklu fleiri hugmyndir því að gervigreindin felur í sér svo mörg tækifæri. En við byrjuðum á Jónsbók og sú vegferð er orðin það stór að ég er ekki að sjá annað en að hún verði áfram okkar kjarnastarfsemi.“

Hindranir og tækifæri
Það sem Bjarni telur mögulega tefja fyrir notkun gervigreindarinnar í sumum fyrirtækjum, er óvissan um það í hvert stefnir.
„Þótt viðhorfsbreytingin sé búin að vera mikil og hröð sérstaklega síðustu tvö þrjú árin, er enginn enn með á hreinu hvernig breytingarnar verða í atvinnulífinu. Við vitum að þær verða gífurlega miklar en enginn veit þó nákvæmlega hvernig gervigreindin mun breyta leiknum í rekstri fyrirtækja.
„Í Zurich vann ég mikið fyrir svissneskan banka við áhættumatslíkön. Í slíkri áhættustýringu er stærðfræðinni sérstaklega beitt í mismunandi líkönum til að meta áhættu og þar var gervigreindin að nýtast rosalega vel. Niðurstöðurnar voru hins vegar erfiðar fyrir eftirlitsaðilana. Því þeir þurfa að skilja hvers vegna niðurstöðurnar eru eins og þær eru og það getur verið vandamál víða.“
Þá segir hann gervigreindina eiga erfitt með að taka tillit til til dæmis ólíkra menningarhópa.
„Útkoma áhættulíkananna sem unnin voru með gervigreindinni voru oft mun skilvirkari en líkön án gervigreindar. En þegar líkönin voru kannski kynnt bankanum komu í ljós atriði eins og til dæmis það að einhver niðurstaða ætti ekki við um ítölskumælandi viðskiptavini bankans í Sviss. Þar af leiðandi gat bankinn ekki stuðst við einhverja niðurstöðu, nema með því að mismuna viðskiptavinahópum eða útibúum.“
Bjarni telur þó tækifærin sem felast í samvinnu með gervigreindinni ótal mörg.
„Margir sérfræðingar óttast til dæmis um störf sín því gervigreindin mun riðla mörgum störfum. Ég lít hins vegar á það þannig að gervigreindin geti skapað ótal tækifæri fyrir þessa sérfræðinga. Því það er ekki ólíklegt að með aukinni notkun gervigreindarinnar muni fyrirtæki vilja í auknum mæli kaupa sérfræðiþekkingu fyrir ákveðin verkefni,“ segir Bjarni og útskýrir nánar:
,,Því þá vita fyrirtækin að þau eru fyrst og fremst að borga sérfræðingnum fyrir að nýta sérfræðiþekkinguna sína. Á meðan gervigreindin sér um að leysa úr ýmsum atriðum sem eru kannski tímafrek í vinnu en koma sérfræðiþekkingu viðkomandi ekki beint við.“
Annað sem Bjarni nefnir líka sérstaklega er samfélagið sem heild.
Við erum smáþjóð sem erum þó rekin eins og milljóna samfélag. Hér stöndum við undir öllu rétt eins og mun fjölmennari þjóðir.
Það eitt og sér að innleiða regluverk EES og fleira, þýðir sömu vinnu fyrir okkur og gildir um milljóna samfélög.
Að vera þessi smáþjóð en nýta gervigreindina vel getur því falið í sér mikið tækifæri fyrir land eins og Ísland.“

Leikskólar kosta rúmlega 300 þúsund
Fyrir stofnun Raxiom starfaði Bjarni í árabil sem ráðgjafi í Sviss fyrir fyrirtæki eins og SigmaQAnalytics og Fintegral en eins íslenska fyrirtækið DataLab. Eiginkona Bjarna er Hólmfríður Hartmannsdóttir en þau eignuðust frumburðinn Jón Braga fyrir fimm árum, þegar þau bjuggu enn úti.
„Í Sviss eru vinnudagarnir mun lengri en tíðkast hér og það er því lítið svigrúm til að vinna að einhverju jafnvægi heimilis og vinnu. Algengt er þegar fólk eignast börn að annar aðilinn hætti að vinna því að leikskólagjöldin í Zurich kosta yfir þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði. Fyrir fólk sem er kannski komið með nokkur börn, er það því nánast óvinnandi vegur fyrir flesta að geta verið með börn á leikskóla,“ segir Bjarni.
Um tíma starfaði Bjarni mikið í London.
„Ég flaug þá frá Zurich á mánudögum, vann í London yfir vikuna og kom heim á föstudögum.“
Þegar skötuhjúin voru búin að ákveða að fara í barneignir, var Bjarni þó hættur þessum ferðalögum.
„Jón Bragi fæddist síðan á hápunkti Covid. Ég þurfti að fara heim strax eftir fæðinguna því ég mátti ekki vera á spítalanum. Hólmfríður þurfti að vera þar í tvo daga en ég fékk hálftíma heimsóknarleyfi til að heimsækja hana daginn eftir. Í anddyri spítalans tók þá á móti mér hermaður sem fylgdi mér um spítalann og til hennar,“ segir Bjarni sem gott dæmi um hversu súrrealískt umhverfið okkar var þegar Covid skall á.
Í sumar eiga hjónin von á tvíburum og því fyrirséð að fljótlega verður í enn meiru að snúast.
En notar þú gervigreindina persónulega sjálfur, fyrir utan vinnuna?
„Já,“ svarar Bjarni að bragði.
Ég nota gervigreindina mun meira í dag en Google til dæmis. Og finnst Google í raun vera orðið lélegra í dag, hvort sem það er rétt eða ekki.
Það tekur mann vissulega smá tíma að venjast því að vinna mikið með gervigreindina en fyrir mér ætti aðalspurningin hjá flestum að vera þessi:
Er þetta tól líklegt til að gera vinnulagið mitt miklu betra og skilvirkara en áður?“