Sport

Sekt upp á sex­tíu milljónir króna fyrir að ná ekki vigt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vantaði svona mikið upp á að Eubanks Jr. myndi ná vigt.
Vantaði svona mikið upp á að Eubanks Jr. myndi ná vigt. Bradley Collyer/Getty Images

Hnefaleikakappinn Chris Eubanks Jr. náði ekki vigt fyrir millivigtar-bardaga sinn gegn Conor Benn sem fram fer síðar í dag, laugardag. Eubanks mun keppa en þarf þó að borga sekt sem hljóðar upp á rúmar 64 milljónir íslenskra króna.

The Guardian greinir frá. Í frétt miðilsins segir að hinn 35 ára gamli Eubanks hafi tvívegis reynt að ná vigt á föstudag en í hvorugt skiptið hafi það gengið. Aðeins vantaði 22 grömm upp á að Eubanks myndi ná vigt en hnefaleikakapparnir þurftu að vera 72,5 kílógrömm til að ná vigt.

Báðir kappar hafa samþykkt klásúlu sem bannar þeim að bæta meira en 4,5 kílógrömmum á sig frá vigtun fram að bardaga. Það mun ekki hafa mikil áhrif á Benn sem náði vigt en Eubanks hefur keppt í ofur-millivigt, þyngdarflokk fyrir ofan millivigt, og er því vanur að vera nokkuð þyngri en hann verður þegar bardagi kvöldsins hefst.

Eubanks fær milljón Bandaríkjadala, 128 milljónir íslenskra króna, fyrir að bæta ekki á sig meiru en 4,5 kílógrömmum frá vigtun til bardaga. Ef hann bætir meiru á sig þarf hann að gefa milljónirnar til baka sem og auðvitað að greiða sektina fyrir að ná ekki vigt.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×