Fótbolti

Leggur til bíl ef fé­lagið á­kveður að ræna Antony

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antony kann vel við sig á Spáni.
Antony kann vel við sig á Spáni. Jose Hernandez/Getty Images

Real Betis goðsögnin Joaquín virðist heldur hrifinn af lánsmanninum Antony. Sá brasilíski skoraði glæsimark þegar Betis lagði Albert Guðmundsson og félaga í Fiorentina 2-1 í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Sambandsdeildar Evrópu.

Hinn 43 ára gamli Joaquín er uppalinn hjá Betis og lék þar lungann af sínum ferli. Hann lék þó einnig fyrir Valencia, Málaga og Fiorentina. Jafnframt lék hann 51 A-landsleik fyrir Spán.

Joaquín var öflugur vængmaður á sínum tíma og hefur heillast af Antony sem kom brotinn á láni til Betis eftir martraðardvöl hjá Manchester United. Brasilíumaðurinn hafði áður heillað hjá Ajax og virðist líka lífið vel í Andalúsíu.

Hann tryggði Betis nauman sigur á fimmtudagskvöld. Það sem gerir markið enn ótrúlegra er að Antony skaut með hægri fæti, eitthvað sem mörg héldu að hann hreinlega gæti ekki.

Markið var hans sjötta fyrir Betis í aðeins 19 leikjum. Ofan á það hefur hann gefið fjórar stoðsendingar.

Svo heillaður er Joaquín af Brasilíumanninum að hann grínaðist með að leggja til bíl ef svo færi að Betis myndi ákveða að ræna Antony til að halda honum hjá Betis.

Talið er að spænska félagið geti ekki borgað Man United uppsett verð fyrir leikmanninn sem kostaði Rauðu djöflana morðfjár á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×