Körfubolti

„Loksins fæ ég að hafa hann í mínu liði“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Benedikt Guðmundsson elskar Sigtrygg Arnar Björnsson.
Benedikt Guðmundsson elskar Sigtrygg Arnar Björnsson. vísir / anton brink

Benedikt Guðmundsson taldi ekki tímabært að svara því áður en tímabilið klárast hvort Tindastóll sé besta lið sem hann hefur þjálfað, en játaði ást sína á Sigtryggi Arnari Björnssyni.

„Verst að ég borða ekki skyndibita“ sagði Benedikt og brosti þegar hann tók við gjafabréfinu á Just Wingin‘ It sem hann fékk fyrir að vinna seríuna gegn Álftanesi.

Klippa: Benedikt Guðmundsson á Körfuboltakvöldi eftir sigur Tindastóls

Benedikt hrósaði andstæðingnum, þakkaði fyrir góða seríu og útskýrði fyrir áhorfendum hvað skilaði Tindastóli sigrinum. Hann talaði líka um Sadio Doucoure, sem mætti brjótast út úr skelinni og skjóta meira.

Benedikt minntist einnig á mikilvægi stuðningsmanna Tindastóls, Grettismanna, sem hann vill meina að séu meðal þeirra þriggja bestu í allri Evrópu.

Þáttastjórnandinn Stefán Árni spurði síðan hvort Tindastólsliðið væri það besta sem Benedikt hefur þjálfað. Hann taldi ekki tímabært að svara þeirri spurningu áður en tímabilið kláraðist. Helgi Magnússon hóstaði í míkrafóninn til að minna Benedikt á KR liðið 2009.

Að lokum ræddu þeir stórskyttuna Sigtrygg Arnar Björnsson, sem Benedikt elskar.

„Ég elska Sigtrygg og hef elskað lengi. Hann er búinn að vera einn af mínum uppáhaldsleikmönnum lengi og loksins fæ ég að hafa hann í mínu liði. Hann er búinn að vera stórkostlegur hingað til…“ sagði Benedikt um Sigtrygg Arnar.

Innslagið úr Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum fyrir ofan. Tindastóll mætir annað hvort Stjörnunni eða Grindavík í úrslitaeinvíginu en oddaleikur þeirra fer fram á morgun, mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×