Innlent

Skallaði mann og dóna­legur við lög­reglu­þjóna

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftir nóttina en í heild voru 66 mál skráð í kerfi lögreglu frá klukkan fimm í gærkvöldi til klukkan fimm í morgun.
Eftir nóttina en í heild voru 66 mál skráð í kerfi lögreglu frá klukkan fimm í gærkvöldi til klukkan fimm í morgun. Vísir/Sammi

Lögregluþjónar handtóku í gærkvöldi mann sem hafði skallað annan í miðbænum. Farið var með manninn á lögreglustöð til að reyna að ræða við manninn en það gekk hins vegar ekki vegna ölvunar mannsins og dónaskaps hans í garð lögregluþjóna.

Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi því verið færður í fangaklefa og að rætt verði við hann í dag, þegar hann er búinn að sofa úr sér og orðinn viðræðuhæfur.

Hann var sá eini sem gisti í fangageymslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina en í heild voru 66 mál skráð í kerfi lögreglu frá klukkan fimm í gærkvöldi til klukkan fimm í morgun.

Þar á meðal eru tvö innbrot í miðbænum. Annað í heimahús og hitt í fyrirtæki. Einnig barst tilkynning um innbrot í fyrirtæki á svæði lögreglustöðvar 3, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti.

Þá barst lögreglunni tilkynning um minniháttar umferðaróhapp en þar kom í ljós að ökumaðurinn var ekki með bílpróf. Að minnsta kosti tveir aðrir voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×