Körfubolti

Miða­sala á Dúllubar í dag og VIP-miðar á 15.000 krónur

Sindri Sverrisson skrifar
Silfurskeiðin verður á sínum stað í Umhyggjuhöllinni á sunnudagskvöld þegar Tindastóll mætir í heimsókn.
Silfurskeiðin verður á sínum stað í Umhyggjuhöllinni á sunnudagskvöld þegar Tindastóll mætir í heimsókn. vísir/Anton

Ljóst má vera að færri komast að en vilja á næsta leik einvígis Stjörnunnar og Tindastóls, í úrslitum Bónus-deildar karla í körfubolta, eftir að einvígið hófst með látum á Sauðárkróki í gærkvöld.

Eftir óhemju mikla spennu allan leikinn náði Tindastóll að éta upp fimm stiga forskot Stjörnunnar á örskotsstundu og tryggja sér sigur í gær, 93-90. Þar með hafa Stólarnir náð í fyrsta sigurinn en vinna þarf þrjá leiki til að landa Íslandsmeistaratitlinum.

Næsti leikur er heimaleikur Stjörnunnar, í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ, og fram kemur í færslu Stjörnumanna á Facebook að eftirspurnin eftir miðum sé mikil.

Tindastóll mun sjá um sölu á sínum hluta miða en Stjörnufólk mætir í röð á Dúllubar á félagssvæði sínu í hádeginu í dag, þar sem miðasala hefst klukkan 12.

Miðaverð er 3.000 krónur og skiptir þá ekki máli á hvaða aldri fólk er. Einnig eru til sölu sérstakir VIP-miðar í fjórar fremstu sætaraðirnar. Miðarnir í fremstu þrjár raðirnar kosta 15.000 krónur stykkið en í fjórðu röðina kosta þeir 8.000 krónur.

Stjarnan er í úrslitum Íslandsmótsins í fyrsta sinn í tólf ár en Stólarnir eru orðnir góðu vanir eftir að hafa núna komist í úrslitin þrisvar á síðustu fjórum árum. Stjarnan er í leit að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli en Tindastóll vann titilinn í fyrsta sinn fyrir tveimur árum.

Úrslitaeinvígið 2025

8. maí: Tindastóll - Stjarnan, 93-90

11. maí: Stjarnan - Tindastóll, kl. 20.15

14. maí: Tindastóll - Stjarnan, kl. 19.15

18. maí: Stjarnan - Tindastóll, kl. 19.15 (ef þarf)

21. maí: Tindastóll - Stjarnan, kl. 19.15 (ef þarf)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×