Viðskipti innlent

Á­skriftir borist í 20 prósenta hlut í Ís­lands­banka

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Pantanir hafa borist umfram grunnmagn útboðsins.
Pantanir hafa borist umfram grunnmagn útboðsins. VÍSIR/VILHELM

Eftirspurn í pantanabók í útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka er tryggð. Sameiginlegir umsjónaraðilar útboðsins hafa móttekið pantanir umfram grunnmagn, eða sem nær til fimmtungshlutar af hlutafé Íslandsbanka.

„Líkt og kemur fram í útboðslýsingu hefur fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu. Frekari upplýsingar um framgang útboðsins munu verða birtar,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Almennt hlutafjárútboð hófst í morgun og gert er ráð fyrir að tilboðstímabili vegna þess ljúki 15. maí næstkomandi klukkan fimm.

Grunnmagn útboðsins nær til tuttugu prósent hlutar af heildarhlutafé bankans. Alls á ríkið 45,2 prósent í bankanum.

Þeir sem kaupa í gegnum tilboðsbók A njóta forgangs við úthlutun hluta gagnvart tilboðsbók B en hún nýtur aftur forgangs gagnvart tilboðsbók C.

Útboðsgengi fyrir tilboðsbók A 106,56 krónur á hvern útboðshlut og lágmarkstilboð er bundið við útboðshluti af verðmæti 100.000 króna. Mest er hægt að kaupa fyrir tuttugu milljónir króna. Útboðsgengi fyrir tilboðsbók B verður ákvarðað með tilboðsfyrirkomulagi en það getur aldrei verið lægra en fast verð á hlutum í tilboðsbók A. Lágmarkstilboð er tvær milljónir króna. Í tilboðsbók C verður verðið ákvarðað með hliðsjón af útboðsgengi í tilboðsbók B. Lágmarkstilboð eru 300 milljónir króna. Engin hámarksupphæð verður á tilboð í tilboðsbók B og C að öðru leyti en því sem takmarkast við heildarstærð útboðsins.

Að útboðinu loknu mun fjármála- og efnahagsráðuneytið birta lista yfir kaupendur, einstaklinga og lögaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×