Innlent

Hafa náð stjórn á sinueldi við Apa­vatn

Jón Þór Stefánsson og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Slökkviliðið hefur náð stjórn á sinueldi við Apavatn í Grímsnesi. Eldurinn kviknaði inni í sumarhúsabyggð, var umfangsmikill að stærð og komst nálægt sumarhúsum á svæðinu.

Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, sagði í samtali við fréttastofu að útkall um eldinn hafi borist rétt fyrir klukkan fjögur. Slökkviliðsmenn frá Laugavatni, Selfossi og Reykholti voru ræstir út og hafa unnið að því að ráða niðurlögum eldsins.

„Þetta gengur ágætlega, en þetta tekur svolítinn tíma. Svæðið er erfitt yfirferðar og það þarf að leggja út mikið af slöngum. Það fer talsverð vinna í það,“ sagði Lárus í samtali við fréttastofu um fimmleytið.

Um 17:20 ræddi fréttastofa aftur við Lárus og þá höfðu slökkviliðsmenn á svæðinu náð stjórn á eldinum og áttu bara eftir að ráða niðurlögum hans endanlega.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hversu stórt svæði er undir eldinum né hver mögulega eldsupptök voru. Á svæðinu þar sem eldurinn kviknaði var lággróður, tré og sumarhús. Að sögn Lárusar tókst að stöðva eldinn áður en hann náði sumarhúsum á svæðinu.

Loks vildi Lárus minna fólk á hve mikilvægt er að fara varlega með eld, ekki síst í slíkum námunda við mikinn gróður.


Veistu meira um málið? Áttu myndir frá vettvangi? Sendu ábendingu á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×