Erlent

Ætlar að tala við Pútín um að „binda enda á blóð­baðið“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að ræða við Vladímír Pútín Rússlandsforseta á mánudag um að „binda enda á ,blóðbaðið‘“ í Úkraínu.

Trump greindi frá þessu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, fyrr í kvöldi. 

Þar sagði Trump að símtalið myndi eiga sér stað klukkan 10 að staðaltíma austurstrandar Bandaríkjanna (klukkan 14 á íslenskum tíma). Eftir það símtal myndi hann ræða við Vólódómír Selenskí Úkraínuforseta og aðra Nato-meðlimi. 

Sagðist Trump vona að samtölin myndu leiða til vopnahlés og stríðinu ljúka.

Viðræðum úkraínskra og rússneskra erindreka í Istanbúl lauk eftir aðeins tveggja tíma fund í gær. Fundurinn var sá fyrsti í þrjú ár þar sem fulltrúar Rússa og Úkraínumanna mætast og voru Rússar sagðir hafa lagt fram óásættanlegar kröfur. 

Trump bauðst til að vera viðstaddur fundinn ef Pútín yrði það líka en Pútín var ekki til í það. Þó fundurinn hafi ekki verið árangursríkur þá samþykktu ríkin að skiptast á stærstu fangaskiptum frá 2022 á næstu dögum.

Undirbúningur hafinn fyrir fundinn

„Vonandi verður þetta árangursríkur dagur, vopnahlé muni eiga sér stað og að þessu ofbeldisfulla stríði, stríði sem hefði aldrei átt að eiga sér stað, muni ljúka. Guð blessi okkur öll!!!“ skrifaði Trump einnig í færslu sinni.

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, staðfesti við rússneska miðla að undirbúningur væri hafinn fyrir símtal milli Pútín og Trump á mánudag.

„Samtalið er í vinnslu,“ sagði Peskov við ríkismiðilinn Tass.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×