Skoðun

Gaza sveltur til dauða - Tími bréfa­skrifta er löngu liðinn

Magnús Magnússon og Hjálmtýr Heiðdal skrifa

Bezalel Smotrich fjármálaráðherra Ísraels sagði í gær, mánudaginn 19. maí:

„Við erum að rífa Gaza í sundur og skilja það eftir sem rústir, með algjörri eyðileggingu sem á sér enga hliðstæðu á heimsvísu. Og heimurinn er ekki að stöðva okkur.” (1)

Tíminn er á þrotum fyrir fólkið á Gaza. Hungur er notað sem vopn og börn eru að deyja vegna næringarskorts. Sameinuðu þjóðirnar telja að á næstu 48 klukkustundum muni 14 þúsund börn verða hungurmorða, en það jafngildir fjölda óbreyttra borgara sem Rússland hefur myrt í Úkraínu seinustu þrjú ár. Eru þá ótalin þau börn og fullorðnir sem munu deyja vegna loftárása og landhernaðar Ísraelshers. Mörghundruð Palestínumenn voru myrtir á síðustu dögum, á meðan Evrópa var með augun á Eurovision.

Þetta eru þjóðarmorð og glæpir gegn mannkyni. Grófustu brot sem til eru í mannlegu samfélagi. Heimurinn getur og verður að stöðva þetta.

Við biðlum því til allra: einstaklinga, félagasamtaka, stjórnmálaflokka, trú- og lífsskoðunarfélaga, menningarstofnanna, listafólks, stéttarfélaga, fyrirtækja - allra - að nota öll þau tól sem þau eiga til að þrýsta á ríkisstjórnina. Þrýsta á að hún grípi til aðgerða strax og þrýsti af öllu afli á bandaþjóðir okkar að gera slíkt hið sama. Tími bréfaskrifta er löngu liðinn. Ísrael hlær að yfirlýsingum.

Allsherjar viðskiptabann á Ísrael, þátttaka Íslands í ákæru S-Afríku fyrir alþjóðadómstólnum og alþjóðleg sniðganga á Ísrael í íþrótta- og menningarsamstarfi STRAX.

Ísrael þarf að yfirgefa Gaza og Vesturbakkann fyrir fullt og allt. Alþjóðasamfélagið þarf að bera ábyrgð á þætti sínum í þjóðarmorðinu - því diplómatíska skjóli sem það hefur veitt Ísrael hjá alþjóðastofnunum og þátttöku sinni í þjóðarmorðinu með stanslausum vopnasendingum til Ísraels þó að löngu sé ljóst að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð. Tryggja verður óheft og frjálst flæði neyðaraðstoðar og hefja endurbyggingu á Gaza strax.

Á morgun söfnumst við saman við utanríkisráðuneytið, Reykjastræti 8, 101 Reykjavík kl. 09:00 og krefjumst þess að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða. Við látum ekki 14.000 börn svelta til dauða. Mætum öll!

Gaza gefst ekki upp - við gefumst ekki upp!

FRJÁLS PALESTÍNA!

(1)https://www.dropsitenews.com/p/netanyahu-trump-gaza-aid-genocide-smotrich-ceasefire-hamas

Höfundar eru stjórnarmenn í Félaginu Ísland-Palestína




Skoðun

Sjá meira


×