Innlent

Börnin fagna litlu sigrunum með bjölluhringingu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Áslaug Salka, hjúkrunardeildarstjóri, segir bjölluna fyrir alla krakkana á barnaspítalanum.
Áslaug Salka, hjúkrunardeildarstjóri, segir bjölluna fyrir alla krakkana á barnaspítalanum. Vísir/Bjarni

Það er mikilægt að fagna litlu sigrunum og því var sett upp áfangabjalla á Barnaspítala Hringsins. Deildarstjóri segir bjölluna eitthvað fyrir krakkana til að hlakka til.

Það var mamma Þorsteins Elfars, sem berst við bráðaeitilfrumuhvítblæði, sem stakk upp á að bjallan yrði sett upp og fékk hann að vígja bjölluna á dögunum.

„Þessi umræða hafði áður komið upp og okkur fannst skemmtilegt að geta fagnað áföngum, það þarf ekki endilega að vera risaáfangar eða lok meðferðar eða eitthvað slíkt. Það geta líka verið litlir áfangasigrar eða litlar breytingar,“ segir Áslaug Salka Grétarsdóttir, hjúkrunarstjóri á barnadeild Landspítalans.

Áfangabjöllur má víða finna á krabbameinsdeildum erlendis.

„Þetta kemur svolítið úr krabbameinsheiminum en okkur finnst mikilvægt að þetta sé fyrir öll börn hér á barnaspítalanum og allir geti fagnað sigrum og áföngum.“

Bjallan er staðsett við leikstofuna, sem er eins konar hjarta barnaspítalans.

„Hér eru leikskólakennarar og kennarar og bara frábært fólk sem lætur þau gleyma í smá stund að þau eru sjúklingar,“ segir Áslaug.

„Ég get ímyndað mér að það sé eitthvað til að hlakka til, að það sé eitthvað sem gefi von. Og svo líka ákveðið fjör, það getur líka verið gaman að fá bara aðeins að sprella.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×